Afmæli afmæli

Undirrituð átti afmæli í vikunni. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, það eiga jú allir afmæli einu sinni á ári. En stóru stelpunum finnst afmæli frábær og eftir að þær fóru að hafa smá vit í kollinum hefur þeim þótt nauðsynlegt að gera eitthvað í tilefni dagsins. 4. mars í ár var því engin undantekning.

Þær 'vöktu' mig með afmælissöng og knúsi, og það er auðvitað frábær byrjun á deginum:) En þetta var skóladagur, hvort sem mamma átti afmæli eða ekki. Fríða bað reyndar um að vera í Plútó-fríi og voru þær því báðar búnar snemma og gátu farið með pabba sínum í Smáralindina að kaupa afmælisgjöf handa mömmu sinni. Þau færðu mér svo fallegan rósavönd og konfektkassa sem ég í græðgi minni át nánast ein, Nói svíkur sko enganWink

Ragnhildur kom svo seinni partinn með sín börn og færði mér gjöf, servíettur, kerti og páskakanínu. Það er eiginlega orðin hefð að fá þau í heimsókn á afmælisdaginn, held það yrði hálftómlegur dagur ef þau kæmu ekki. Svona eins og ef amma hringir ekki í mann á afmælinu þá vantar eitthvað. Og svo komu mamma og Valdimar í kvöldmat og gáfu mér í tilefni dagsins rauða eldhússvuntu. Nú getur mamma sko farið að baka hrópaði Fríða Valdís himinlifandi:)

Það var svo ljómandi fallegt bros sem læddist yfir andlit dætra minna þegar þær voru lagstar á koddann og ég kyssti þær góða nótt og þakkaði þeim fyrir að gera afmælisdaginn minn svona góðan. Þær eru sko alveg yndislegar.

Takk takk elsku Bárður, Edda, Fríða og Ásta fyrir afmælisgjöfina og skemmtilegan dag. Takk elsku Ragnhildur og kó fyrir að koma, mér fannst æðislegt að fá ykkur, þó stutt væri. Og elsku mamma og Valdimar, takk fyrir að koma og borða með okkur.

En í dag, 8. mars, eiga litlu strákarnir hennar Söru afmæli. Alltaf segir maður litlu strákarnir, þeir eru sko orðnir 2ja ára, þeir Kolbeinn Hrafn og Þorsteinn Úlfur. Til hamingju með daginn elskurnar mínar:) Þið eigið inni hjá okkur afmælisknús og pakka þegar þið komið heim í sumar.

Knús og kossar til ykkar allra,
Lóa - sem orðin er eldri og reyndari en síðast:)


Bréf til Söru

Elsku besta Sara systir

Hún mamma mín stendur sig ekkert í því að blogga um okkur systur svo ég verð bara að taka þetta að mér. Kannski er hún bara orðin svona þreytt eftir að halda mikið á mér, ég er orðin soddan mömmustelpa og hef varla mátt missa hana úr augsýn. Og mamma segir að það sé vegna þess að ég hef verið lasin, með kvef og eyrnabólgu, iss hún veit ekkert sko. Auðvitað má ég ekki af mömmu sjá af því hjá henni finnst mér best að vera. Og svo pabba líka þegar hann er heima, sérstaklega er gott að sofa í fanginu á honum.feb09_119.jpg 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég er sko orðin stór núna, enda meira en 6 mánuðir síðan ég fæddist. Mamma fór með mig í skoðun um daginn og þá var ég sko orðin 65 sm og um 6500 gr. Ég er líka farin að borða og finnst best að fá grautinn minn og kannski smá eplamauk út á. Kartöflur finnst mér ekki góðar, ég bara gubba af þeim samt er mamma oft að prófa að gefa mér þær. Segir eitthvað að ég verði að læra að borða þær. Svo hefur hún reynt að gefa mér eitthvað sem hún kallar brauð með smjöri en ég passa mig sko á að opna ekki munninn ef þetta kemur nálægt mér. Jakk. Hún á bara að gefa mér graut og helst ekki þessa ab-mjólk *hrollur* sem hún gaf mér þegar ég var á pensillíni. Getur þú sagt henni þetta fyrir mig?

En það var sko mikil spenna þegar ég fékk graut í fyrsta sinn, Edda og Fríða vildu báðar gefa mér og fannst þetta svo gaman. Þær eru ekkert svo æstar í að gefa mér að borða í dag. En hér er ég að Fyrsti grauturinnfá graut í fyrsta sinn og er sko alveg til í það. Á næstu mynd sýni ég þér hvað ég borðaði mikið... eða hvað ég ætla að stækka mikið... æ ég man það ekki. En það var alla vega svona stórt!

Svona mikið

 

 

 

 

 Og hvað er Ásta stór??? Þetta kann ég sko alveg og finnst það ferlega fyndið að sjá hvað mamma og pabbi verða fyndin á svipinn þegar þau gera þetta, svona kjánamontsvipur sem kemur á þau. Þau lyfta samt ennþá upp höndunum mínum en ég veit samt alveg hvað á að gera þeim finnst bara svo gaman að hjálpa mér að ég leyfi þeim það, læt þau ekkert vita að ég get þetta sjáf. Uss ekki segja.

Við höfum verið mikið heima undanfarnar vikur því ég var lasin og mamma var lasin og stelpurnar pínu lasnar. Og það er búið að vera kalt og mikill snjór en svo fór snjórinn, mömmu til mikillar gleði en svo er hann bara kominn aftur, skil þetta ekki alveg en mér er svo sem alveg sama ég þarf ekki að vaða skafla með vagn í eftirdragi eða skafa bílrúður. Við höfum nú samt farið pínu út, eins og í ballettskólann og svoleiðis. Og svo fórum við í afmæli hjá afa, hann varð sextugur um daginn. Það var mjög gaman en allir borðuðu saltkjöt og baunir nema ég fékk ekkert svoleiðis, ekki einu sinni almennilegan graut því mamma gleymdi honum heima. Ég fékk ekki heldur kökur á eftir en systur mínar voru voða glaðar því það var bæði súkkulaðikaka og marsipanterta, ég held að það verði mjög gaman að fá svoleiðis einhvern tímann. Við systurnar máluðum myndir handa honum, hann fékk því þrjú málverk frá okkur í afmælisgjöf. Mamma gleymdi að taka myndir af listaverkunum en í staðinn er hér mynd af okkur í fanginu á afa, hann fékk líka svona mynd.

Afi með stelpurnar

 

 

 

 

 

 

 

 

Systur mínar voru voða spenntar fyrir öskudeginum og spáðu mikið í hvernig búning þær ættu að vera í. Fríða vildi bara vera norn og þá er nú aldeilis gott að eiga svona góðar vinkonur eins og Margréti Sól og Þórhildi Rósu því þær lánuðu henni nornabúningana sína. Edda vildi ekki vera álfur eða prinsessa en var í staðinn RauðhettaRauðhetta og Ógurlega nornin. Mamma málaði þær svo svaka flott í framan. Hér er mynd af Fríðu Ógurlegu og Rauðhettu með blóm í körfunni. Nornin ógurlega fór svo á frístundaheimilið í öskudagshúllumhæ en fyrst tóku þær lagið í bakaríinu og fengu í staðinn skúffukökubita. Við mamma og Edda skunduðum hins vegar til ömmu. Fyrirgefðu það var Rauðhetta en ekki Edda sem fór til ömmu, að vísu ekki með vín og kökur handa ömmu enda má hún ekkert fá svoleiðis. Seinna um daginn komu svo bestu bestu vinir okkar í heimsókn en það eru Eiríkur Örn, Þórhildur Rósa og Margrét Sól. Svo öskudagur var bara mjög skemmtilegur þrátt fyrir að mamma hafi ekki sett mig í búning. Edda var alltaf að biðja mömmu um það en mamma vildi það ekki. En sko næsta öskudag kemst hún ekki upp með annað en að klæða mig í búning. Veistu Sara það er svo gaman að eiga svona stórar systur eins og Eddu og Fríðu því það er endalaust hægt að heyra sögur af þeim. Til dæmis þegar þær fóru fyrst í grímubúning, þá var Edda að verða 3 ára og var á leikskóla. Hún fór í heimatilbúinn Línu-búning (rosalega flottan) og fékk freknur og tíkó. Fríða fékk að fara í skokk og fá freknur þó hún væri bara hjá dagmömmu. Það er til flott mynd af þeim systrum í þessum búning, kannski skannar mamma hana inn einhvern tímann. En það fyndna við þetta er að Edda Sólveig hætti ekkert að vera Lína þó öskudagurinn væri búinn, næstu vikurnar hún fór ekki í leikskólann öðruvísi en með tíkó og freknur:) Bara eins og ef þú færir ekki út nema setja á þig maskara eða varalit.

Þessar skemmtilegu systur mínar eru núna í vetrarleyfi og eru búnar að vera heima í FIMM daga og þegar mamma sagði þeim áðan að nú skyldu þær lesa - því þær eiga alltaf að lesa heima - hurfu þær inn í herbergi að leika sér og veistu það Sara að þær hafa ekki verið svona góðar vinkonur lengilengi. Kannski er ráðið að láta þær fara að læra til að þær leiki sér fallega saman. Neinei ég segi svona, langoftast eru þær góðar vinkonur. En ég held stundum að þær séu ekki eins hrifnar af mér og fyrst, t.d. segir Edda mér oft að þegja. Já trúirðu þessu. Hún er kannski að horfa á eitthvað í sjónvarpinu og ég er bara að syngja eða segja henni eitthvað skemmtilegt, kannski bara að tala um teiknimyndina þá segir hún bara þegiðu Ásta. Þá fer ég bara að hlæja og hlæja, hún er svo fyndin. Sérstaklega þegar hún segir mér bara aftur að þegja og þá bara hlæ ég enn meir.

Fríða er oft að segja eitthvað fyndið en ég get aldrei munað það, mömmu finnst það fyndið því það er stundum ekki alveg rétt, eins og til dæmis að vera illtara einhvers staðar. Mömmu finnst hún algjör málfræðisnillingur. Og svo býr hún til orð, eins og að blautklúta, það er sem sé að þvo á mér rassinn með blautklút. Mjög skynsöm og alveg rétt orðmyndun, segir mamma:) Og svo er hún líka oft að segja pabba fyrir verkum, hún Fríða sko (mamma segir honum líka fyrir verkum en ég er ekkert að skrifa það hér). Fríða fór til hans um daginn og sagði 'Pabbi, mundu svo að slökkva öll ljósin þegar þú ferð að vinna'. Það er svo fyndið með Fríðu, hún vill hafa allt í röð og reglu (sko hennar uppáhaldsþáttur var einu sinni Allt í drasli, þrífuþátturinn kallaði hún hann), lokar öllum skápum og skúffum sem pabbi gleymir að loka, hún hefur ákveðnar skoðanir á hvar hlutirnir eiga að vera og svona en hún nennir sko alls ekki að taka til sjálf, henni tekst alltaf að koma sér undan því og svo má Edda ganga frá öllu. Ég ætla sko að hjálpa henni þegar ég verð stór eða sko stærri, eða ég held það alla vega. Hérna færðu enn eina myndina af stóru flottu kláru systrum mínum, sem ég hlakka svo til að leika meira við:

Edda og Fríða

 

 

 

 

 

 

 

Elsku besta Sara mín ég hlakka mikið til að hitta þig þegar þú loksins kemur heim, og líka þessa prakkarafrændur mína sem eru nú að verða tveggja ára segir mamma. Við horfum stundum á videomyndirnar af þeim þar sem þeir eru að príla upp á allt og leika sér. Þá segja Edda og Fríða 'Oooh ég vildi ég væri þarna hjá þeim'. Þær hlakka sko líka til að hitta ykkur aftur. 

 Nú eru þær búnar að setja mig í dúkkukerru og keyra mig um allt, vá hvað þetta er gaman.

Knús og kossar Sara mín. Edda og Fríða biðja sko kærlega að heilsa og auðvitað mamma og pabbi líka.

Þín litla systir,

Ásta Lóa

Ásta Lóa


Þorrablót í Gvendargeisla

Nú hefur Ásta Lóa farið á sitt fyrsta þorrablót, tími til kominn sko! Eiginlega var þetta líka fyrsta þorrablót stóru stelpnanna ef frá eru talin leikskólaþorrablótin.

Já við fórum á þorrablót, öll fjölskyldan, og skemmtum okkur konunglega í góðum félagsskap. Ragnhildur og Sveinn buðu okkur á Þorrablótið í Gvendargeisla og fengum við ekta þorramat, súran og kæstan og reyktan og allt eins og það á að vera og átum við á okkur gat.

Það voru því þreyttar stelpur sem lögðust á koddann í kvöld, enda komum við ekki heim fyrr en að ganga tólf. Skemmtilegast af öllu var, fannst Fríðu Valdísi, að krakkarnir fengu sko að leika sér, þurftu ekki bara að borðaWink

Takk fyrir okkur Ragnhildur og Sveinn, við hlökkum til að koma í næsta þorrablót:) Og þá getur nú Ásta Lóa gætt sér á matnum með okkur. 


Ömmur og mömmur

Ömmur eru alveg yndislegar og ættu allir að eiga a.m.k. eina slíka. Því miður fá nú ekki allir að njóta ömmu sinnar en við mæðgur erum svo heppnar að eiga ömmur á lífi. Ég á ömmu á Húsavík sem er þá auðvitað langamma stelpnanna. Svo eiga þær tvær ömmur hér í Reykjavík og er ekki hægt að hugsa sér betri ömmur en þær, a.m.k. ekki fyrir þessar systur. Edda lærði svo fallega vísu í skólanum sem mig langar að deila með  ykkur, hún er alveg í uppáhaldi þessi:

Gaman væri að gleðja hana ömmu
og gleðibros á vanga hennar sjá.
Því amma er mamma hennar mömmu
og mamma er það besta sem ég á.

Ömmurnar gefa okkur nefnilega mömmu og pabba og þess vegna eru þær svo dýrmætar. Langamma á Húsavík kom í heimsókn til Reykjavíkur um daginn. Við kíktum á hana og Boggu og Hjalla þar sem þau héldu til á Freyjugötunni. Hér erum við allar saman.

Me� lang�mmu


Myndir

Nú tókst mér loksins að setja inn myndir, þurfti að skipta um browser og þetta er bara allt annað líf. Setti nokkrar myndir úr skírninni og svo koma fleiri á næstunni.

Lóa 


Edda blómaálfur

Í dag er smelladagur hjá Eddu. Það þýðir að þau mega koma með dót og í búning og er þetta verðlaun fyrir að vera góð og dugleg í skólanum, þau hafa sem sé safnað nógu mörgum smellum.

Og að sjálfsögðu vildi mín dama fara í búning en hér voru bara til prinsessubúningar og maður fer ekki oft í sama prinsessubúninginn, það vita nú allir. Það vita nú líka allir að maður hleypur ekki bara út í búð og kaupir búning eins og ekkert sé. Og þá er bara eitt eftir, jú að búa til búning. Húsmóðirin hér á bæ skellti sér í hönnunargírinn og útkoman er ansi flottur álfabúningurWink

 

 
Edda blomaalfur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég saumaði saman gamla peysu og pils, klippti aðeins ermarnar og saumaði perlur og gerviblóm á peysuna. Það var sko sæll blómaálfur sem fór í skólann í morgun og hlaut mikla aðdáun bekkjarfélaganna. Fríða fær líka álfabúning, á eftir að sauma saman peysu og pils og fleiri perlur á peysuna. Gleðin og spennan yfir þessum búningum gerði saumaskap til kl. 3 í nótt þess virði.


Halló

Jájá aldeilis orðið langt síðan síðast:) Það vantar nú ekki fréttirnar héðan heldur hefur bara almenn leti hrjáð fréttaritarann, en nú skal bætt úr því.

Fyrst má nú nefna það, þar sem ég veit þið bíðið í ofvæni eftir því, að Fríða er búin að missa fyrstu tönnina! Já það var nú mikil gleði í gangi og allir spenntir, meira að segja Edda sem hefur misst 6 tennur. Ég á nú þrjár stelpur sem eru meira og minna tannlausar:) Ein þeirra sönglar ég er búin að missa tönn, ég er búin að missa tönn! Hver skyldi það nú vera??

Skólinn er auðvitað kominn á fullt hjá þeim systrum, sem og ballettinn. Hér höfum við því nóg að gera við að lesa á hverjum degi og vinna heimanámið ásamt því að taka nokkur spor við og við. Fríða er alsæl í frístundaheimilinu en hún er nú oft ansi þreytt þá daga sem hún er þar. Hún heldur samt sem áður áfram að huga að málfræðinni sinni, oftar en ekki við mikla kátínu móðurinnar. Um daginn var henni illt í fætinum og svo varð henni bara illtara og illtara! Hvað skal gera þegar mann illtar svona mikið?

Edda Sólveig er orðin mjög dugleg að lesa, oft les hún fyrir Fríðu á kvöldin eða þá bara í hljóði fyrir sig. Nú er hún farin að koma heim með bækur af skólabókasafninu. En samt er nú alltaf best að hlusta pabba segja sögur, sérstaklega um Siggu í sirkusnum. Það má nú leggja ýmislegt á sig til að fá sögu hjá pabba, meira að segja að hátta kl. átta.

Ásta Lóa stækkar og stækkar, enda orðin 5 mánaða. Já FIMM mánaða. Bíddu við, var það ekki bara í fyrradag sem ég átti hana? Finnst eins og það hafi verið í síðustu viku sem ég var ólétt. Við vorum nú að rifja það upp hér yfir kalkúninum á gamlárskvöld þegar ég í fyrra var með einhverja magapest og hafði litla lyst á matnum. Þá grunaði okkur ekki að lítil Ásta Lóa væri búin að hreiðra um sig í maganum á mér, það var víst engin magapest á ferðinni heldur bara gamaldags ólétta. Nú er þessi gleðigjafi farin að velta sér og teygir sig í allt sem fyrir augu ber. Hún er mjög hrifin af rauðum lit, enda er hann mjög fallegur. Greinilega mikil smekkmanneskja hún Ásta Lóa:) Hún er hætt að nota vögguna, finnst heldur ekkert gaman að liggja, vill frekar sitja í stól og spjalla við okkur hin. Og bráðum fær hún líka að borða eins og við hin, held að hún verði hrifin af því.

En nú er umrædd dama vöknuð svo ég læt hér staðar numið að sinni. Ég ætlaði að setja inn myndir en á í vandræðum með að koma þeim í albúm svo það bíður betri tíma.
Kveðja úr Unufellinu.

Gleðilegt ár

Við óskum öllum gleði og gæfu á nýja árinu og þökkum um leið fyrir yndislegar stundir á liðnum árum.

Kærar kveðjur,

Bárður, Lóa, Edda Sólveig, Fríða Valdís og Ásta Lóa


Fríða með lausa tönn:)

Loksins loksins er Fríða mín komin með lausa tönn. Það er framtönn í neðri góm og búið er að bíða lengi eftir að hún losni, ja eða bara einhver tönn. Hingað til hefur allt verið pikkfast þó með góðum vilja hafi stundum mátt finna einhverja lausung í tönninni. En nú er það sem sé pottþétt. Og sex ára stelpan, sem er hvorki lítil né stór, bara mátuleg, er himinsæl með þetta óyggjandi merki um að vera að stækka.

Jólin koma

Hér í Unufellinu er jólaundirbúningurinn vel á veg kominn, bara eftir að taka smá til og þrífa baðið og skipta á rúmum. Húsbóndinn er búinn að skúra og skreyta meðan húsmóðirin hefur legið með tærnar upp í loft. Nei það gerðist ekki þannig að maðurinn minn sagði: elskan nú er komið að  mér að sjá um jólaþrif og jólaundirbúning, leggstu bara upp í sófa og hafðu það huggulegt með konfekt og bók. Neineinei. Þannig var að á laugardagskvöldið þurfti ég að skjótast inn í Select hérna í Breiðholtinu og gegn betri vitund stöðvaði ég bílinn við fremri bensíndæluna þar sem Ásta Lóa var sofandi í stólnum sínum og ég ætlaði bara rétt að hlaupa inn, ég legg venjulega í bílastæði ef ég þarf ekki að kaupa bensín. Þar sem ég stíg út úr bílnum kemur bíll að aftari dælunni en í stað þess að stöðva heldur hann áfram. Ég gerði bara fastlega ráð fyrir að hann myndi nú stoppa svo ég geng aftur fyrir minn bíl til að fara inn í bensínstöðvarsjoppuna - aftur gegn minni betri vitund því ég hugsaði með mér ætlar maðurinn ekki að stoppa, ætti ég að bíða. Neinei auðvitað stoppar maðurinn. Svo ég arka af stað en mér til mikillar furðu, ég bara ætlaði ekki að trúa þessu, stoppar bíllinn ekki heldur stefnir beint á mig og keyrir á mig, klemmir mig á milli bílanna!

Ég varð reið, mikið ofboðslega varð ég reið. Og ég fann mikið til. Og ég var bara ekki að trúa þessu, að hann hafi bara keyrt á mig. Allt í einu stóð ég við bílstjórahurðina og reif hana upp og öskraði á bílstjórann sem var mjög hissa á svipinn og horfði á mig eins og hann vissi ekki hvaðan ég kæmi. Eru ekki bremsur á bílnum þínum? jújú auðvitað svarar hann. Af hverju notarðu þær þá ekki? Ég bara sá þig ekki var svarið! (Halló, hvernig er það hægt, að sjá mig ekki???) Maður á að horfa fram fyrir sig þegar maður er að keyra öskra ég enn og rýk að mínum bíl til að athuga með Ástu, hún steinsvaf blessunin. Manngarmurinn staulaðist á eftir mér, alveg miður sín en samt einhvern veginn eins og hann væri enn ekki búinn að ná því að hafa keyrt á mig. Er allt í lagi með þig? Viltu ekki setjast? Nei auðvitað er ekki allt í lagi með mig, þú keyrðir á mig! Svo hringdi ég í 112 og þá var ég farin að finna mikið til og hágrét líka. Af sársauka og af reiði og svekkelsi yfir að þetta kæmi fyrir mig. Og í hvert sinn sem ég leit á þetta mannræksni kom yfir mig ný grenja. Hann kenndi lélegu skyggni um að hafa ekki séð  mig og að þetta væri mikill panikktími! Ég gaf nú lítið fyrir þessar afsakanir enda var hann bara ekki að horfa fram fyrir sig, hann var að gera eitthvað allt annað en að keyra.

Sjúkrabíllinn kom og fór með mig niðurá slysó. Löggan kom og fór með bílstjórann og bílinn niður á löggustöð. Ég er nokkuð viss um að  hann hafi verið undir einhverjum áhrifum, einhverju aðeins sterkara en kaffi.  Félagi hans lét sig líka hverfa áður en löggan kom, hefur ekki viljað hitta hana.

Ég er sem betur fer óbrotin, er 'bara' marin og bólgin, mest á hægra fæti í kringum hnéð, en hnéð sjálft slapp. Það má því segja að almættið hafi passað mig því þetta hefði getað farið mikið verr. Og svo má líka benda á að þetta óhapp hefur algjörlega komið í veg fyrir verslunarferðir húsmóðurinnar og þar með stöðvað öll óþarfa útgjöld. Maðurinn minn fékk líka að skúra gólfin (loksins) og hafa þau ekki verið svona vel skúruð í marga mánuði.

En nóg um mig. Jólasveinarnir hafa mætt hér reglulega eins og á önnur barnaheimili landsins. Þeir hafa nú fært þeim systrum eitthvað meira spennandi en sokkabuxur en hins vegar eru þeir ekkert mjög vel að sér um ungbörn því t.d. Skyrgámur gaf Ástu Lóu súkkulaði í skóinn! Best að geyma það þar til hún hefur aldur til að borða það. Neinei stóru stelpurnar tóku að sér að borða það fyrir hana, þær eru svo hugulsamar. Nú er von á síðasta jólasveininum, honum kertasníki. Eins gott að öll kertin verði enn á sínum stað í fyrramálið. 

Við vitum það hér á þessu heimili (af fenginni reynslu) að jólin koma, hvernig svo sem staðið hefur verið að undirbúningnum. Þrátt fyrir að enginn hafi fengið jólaklippingu og engin séu jólanáttfötin, og jólakortin séu ekki komin í póst, og hitt og þetta hafi verð látið ógert sem annars heyrir til jólaundirbúnings, þá koma jól (mér finnst eins og ég hafi upplifað svona áður, og það án þess að verða fyrir bíl fjórum dögum fyrir jól). Og það er mikil tilhlökkun og gleði hér á bæ. Helsta áhyggjuefnið er að mamma þurfi að hafa fæturna upp á borði með kodda undir, það er ekki fínt á jólum.

Þrátt fyrir ungan aldur eiga þær systur miklar jólahefðir og virðast muna mjög vel eftir fyrri jólum. T.d. er Edda amma alltaf hjá okkur á aðfangadag, enda þætti okkur varla vera jól ef hún væri ekki. Fyrir tveimur árum var Fríða mjög spennt yfir jólunum og að búið væri að þrífa svona vel og gera fínt og einhverra hluta vegna átti hún von á fjölda manns. Þegar klukkan nálgaðist sjö og borðhaldið var að komast á skrið tilkynnti hún ömmu sinni að þetta væru ömurleg jól. Nú?? Já, það er enginn gestur nema þú! Þetta getur bara Fríða Valdís. Fljótlega skipti hún þó um skoðun, þetta voru auðvitað æðisleg jól. Stelpurnar vilja líka opna einn pakka klukkan fimm. Og þær vilja sinn graflax og ristað brauð í forrétt. Eða eru það ekki þær sem vilja það?

Ég var að rifja upp jólin þegar þær voru litlar. Þegar Edda Sólveig var einsoghálfsárs vildi hún ekki sjá jólamatinn en át allar mandarínurnar sem til voru, það var ekki viðlit að fá annað ofan í hana. Við vorum því fegin bara þegar allar mandarínur voru búnar en svo opnuðum við pakkann frá bræðrum mínum og hvað haldiði að hafi leynst þar? Jú karfa með mandarínum! Þvílík gleði hjá minni dömu. En við létum körfuna hverfa áður en hún náði að torga öllum mandarínunum og fundum því ekki út fyrr en nokkrum dögum seinna að gjafabréf leyndist undir mandarínunum. Þessi jól var Fríða Valdís bara á brjósti og lét sér fátt um finnast þó jólin væru. En næstu jól á eftir var hún í fullu fjöri en líkt og systir sín jólin á undan vildi hún ekki sjá jólamatinn, það var aðeins súrmjólk og kornfleks sem hún vildi fá. Ég efast um að henni þætti það góður jólamatur núna, hvað svo sem henni finnst um kjöt og kartöflur.

Okkur tókst að ráða bug á tæknivandræðunum og af því tilefni birtist hér mynd af úr skírninni. Fleiri myndir koma svo á næstu dögum.

Systur í skírnarveislunni 

Jólakveðja,

Lóa 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband