Jólin koma

Hér í Unufellinu er jólaundirbúningurinn vel á veg kominn, bara eftir að taka smá til og þrífa baðið og skipta á rúmum. Húsbóndinn er búinn að skúra og skreyta meðan húsmóðirin hefur legið með tærnar upp í loft. Nei það gerðist ekki þannig að maðurinn minn sagði: elskan nú er komið að  mér að sjá um jólaþrif og jólaundirbúning, leggstu bara upp í sófa og hafðu það huggulegt með konfekt og bók. Neineinei. Þannig var að á laugardagskvöldið þurfti ég að skjótast inn í Select hérna í Breiðholtinu og gegn betri vitund stöðvaði ég bílinn við fremri bensíndæluna þar sem Ásta Lóa var sofandi í stólnum sínum og ég ætlaði bara rétt að hlaupa inn, ég legg venjulega í bílastæði ef ég þarf ekki að kaupa bensín. Þar sem ég stíg út úr bílnum kemur bíll að aftari dælunni en í stað þess að stöðva heldur hann áfram. Ég gerði bara fastlega ráð fyrir að hann myndi nú stoppa svo ég geng aftur fyrir minn bíl til að fara inn í bensínstöðvarsjoppuna - aftur gegn minni betri vitund því ég hugsaði með mér ætlar maðurinn ekki að stoppa, ætti ég að bíða. Neinei auðvitað stoppar maðurinn. Svo ég arka af stað en mér til mikillar furðu, ég bara ætlaði ekki að trúa þessu, stoppar bíllinn ekki heldur stefnir beint á mig og keyrir á mig, klemmir mig á milli bílanna!

Ég varð reið, mikið ofboðslega varð ég reið. Og ég fann mikið til. Og ég var bara ekki að trúa þessu, að hann hafi bara keyrt á mig. Allt í einu stóð ég við bílstjórahurðina og reif hana upp og öskraði á bílstjórann sem var mjög hissa á svipinn og horfði á mig eins og hann vissi ekki hvaðan ég kæmi. Eru ekki bremsur á bílnum þínum? jújú auðvitað svarar hann. Af hverju notarðu þær þá ekki? Ég bara sá þig ekki var svarið! (Halló, hvernig er það hægt, að sjá mig ekki???) Maður á að horfa fram fyrir sig þegar maður er að keyra öskra ég enn og rýk að mínum bíl til að athuga með Ástu, hún steinsvaf blessunin. Manngarmurinn staulaðist á eftir mér, alveg miður sín en samt einhvern veginn eins og hann væri enn ekki búinn að ná því að hafa keyrt á mig. Er allt í lagi með þig? Viltu ekki setjast? Nei auðvitað er ekki allt í lagi með mig, þú keyrðir á mig! Svo hringdi ég í 112 og þá var ég farin að finna mikið til og hágrét líka. Af sársauka og af reiði og svekkelsi yfir að þetta kæmi fyrir mig. Og í hvert sinn sem ég leit á þetta mannræksni kom yfir mig ný grenja. Hann kenndi lélegu skyggni um að hafa ekki séð  mig og að þetta væri mikill panikktími! Ég gaf nú lítið fyrir þessar afsakanir enda var hann bara ekki að horfa fram fyrir sig, hann var að gera eitthvað allt annað en að keyra.

Sjúkrabíllinn kom og fór með mig niðurá slysó. Löggan kom og fór með bílstjórann og bílinn niður á löggustöð. Ég er nokkuð viss um að  hann hafi verið undir einhverjum áhrifum, einhverju aðeins sterkara en kaffi.  Félagi hans lét sig líka hverfa áður en löggan kom, hefur ekki viljað hitta hana.

Ég er sem betur fer óbrotin, er 'bara' marin og bólgin, mest á hægra fæti í kringum hnéð, en hnéð sjálft slapp. Það má því segja að almættið hafi passað mig því þetta hefði getað farið mikið verr. Og svo má líka benda á að þetta óhapp hefur algjörlega komið í veg fyrir verslunarferðir húsmóðurinnar og þar með stöðvað öll óþarfa útgjöld. Maðurinn minn fékk líka að skúra gólfin (loksins) og hafa þau ekki verið svona vel skúruð í marga mánuði.

En nóg um mig. Jólasveinarnir hafa mætt hér reglulega eins og á önnur barnaheimili landsins. Þeir hafa nú fært þeim systrum eitthvað meira spennandi en sokkabuxur en hins vegar eru þeir ekkert mjög vel að sér um ungbörn því t.d. Skyrgámur gaf Ástu Lóu súkkulaði í skóinn! Best að geyma það þar til hún hefur aldur til að borða það. Neinei stóru stelpurnar tóku að sér að borða það fyrir hana, þær eru svo hugulsamar. Nú er von á síðasta jólasveininum, honum kertasníki. Eins gott að öll kertin verði enn á sínum stað í fyrramálið. 

Við vitum það hér á þessu heimili (af fenginni reynslu) að jólin koma, hvernig svo sem staðið hefur verið að undirbúningnum. Þrátt fyrir að enginn hafi fengið jólaklippingu og engin séu jólanáttfötin, og jólakortin séu ekki komin í póst, og hitt og þetta hafi verð látið ógert sem annars heyrir til jólaundirbúnings, þá koma jól (mér finnst eins og ég hafi upplifað svona áður, og það án þess að verða fyrir bíl fjórum dögum fyrir jól). Og það er mikil tilhlökkun og gleði hér á bæ. Helsta áhyggjuefnið er að mamma þurfi að hafa fæturna upp á borði með kodda undir, það er ekki fínt á jólum.

Þrátt fyrir ungan aldur eiga þær systur miklar jólahefðir og virðast muna mjög vel eftir fyrri jólum. T.d. er Edda amma alltaf hjá okkur á aðfangadag, enda þætti okkur varla vera jól ef hún væri ekki. Fyrir tveimur árum var Fríða mjög spennt yfir jólunum og að búið væri að þrífa svona vel og gera fínt og einhverra hluta vegna átti hún von á fjölda manns. Þegar klukkan nálgaðist sjö og borðhaldið var að komast á skrið tilkynnti hún ömmu sinni að þetta væru ömurleg jól. Nú?? Já, það er enginn gestur nema þú! Þetta getur bara Fríða Valdís. Fljótlega skipti hún þó um skoðun, þetta voru auðvitað æðisleg jól. Stelpurnar vilja líka opna einn pakka klukkan fimm. Og þær vilja sinn graflax og ristað brauð í forrétt. Eða eru það ekki þær sem vilja það?

Ég var að rifja upp jólin þegar þær voru litlar. Þegar Edda Sólveig var einsoghálfsárs vildi hún ekki sjá jólamatinn en át allar mandarínurnar sem til voru, það var ekki viðlit að fá annað ofan í hana. Við vorum því fegin bara þegar allar mandarínur voru búnar en svo opnuðum við pakkann frá bræðrum mínum og hvað haldiði að hafi leynst þar? Jú karfa með mandarínum! Þvílík gleði hjá minni dömu. En við létum körfuna hverfa áður en hún náði að torga öllum mandarínunum og fundum því ekki út fyrr en nokkrum dögum seinna að gjafabréf leyndist undir mandarínunum. Þessi jól var Fríða Valdís bara á brjósti og lét sér fátt um finnast þó jólin væru. En næstu jól á eftir var hún í fullu fjöri en líkt og systir sín jólin á undan vildi hún ekki sjá jólamatinn, það var aðeins súrmjólk og kornfleks sem hún vildi fá. Ég efast um að henni þætti það góður jólamatur núna, hvað svo sem henni finnst um kjöt og kartöflur.

Okkur tókst að ráða bug á tæknivandræðunum og af því tilefni birtist hér mynd af úr skírninni. Fleiri myndir koma svo á næstu dögum.

Systur í skírnarveislunni 

Jólakveðja,

Lóa 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ógn og skelfing var að lesa um ákeyrsluna. Ég gat varla andað á meðan ég las þetta. Ég vona að þú gróir vel sára þinna, bæði á líkama og sál.

Gleðileg jól og blessunaríkt ár. 

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 24.12.2008 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband