Halló

Jájá aldeilis orðið langt síðan síðast:) Það vantar nú ekki fréttirnar héðan heldur hefur bara almenn leti hrjáð fréttaritarann, en nú skal bætt úr því.

Fyrst má nú nefna það, þar sem ég veit þið bíðið í ofvæni eftir því, að Fríða er búin að missa fyrstu tönnina! Já það var nú mikil gleði í gangi og allir spenntir, meira að segja Edda sem hefur misst 6 tennur. Ég á nú þrjár stelpur sem eru meira og minna tannlausar:) Ein þeirra sönglar ég er búin að missa tönn, ég er búin að missa tönn! Hver skyldi það nú vera??

Skólinn er auðvitað kominn á fullt hjá þeim systrum, sem og ballettinn. Hér höfum við því nóg að gera við að lesa á hverjum degi og vinna heimanámið ásamt því að taka nokkur spor við og við. Fríða er alsæl í frístundaheimilinu en hún er nú oft ansi þreytt þá daga sem hún er þar. Hún heldur samt sem áður áfram að huga að málfræðinni sinni, oftar en ekki við mikla kátínu móðurinnar. Um daginn var henni illt í fætinum og svo varð henni bara illtara og illtara! Hvað skal gera þegar mann illtar svona mikið?

Edda Sólveig er orðin mjög dugleg að lesa, oft les hún fyrir Fríðu á kvöldin eða þá bara í hljóði fyrir sig. Nú er hún farin að koma heim með bækur af skólabókasafninu. En samt er nú alltaf best að hlusta pabba segja sögur, sérstaklega um Siggu í sirkusnum. Það má nú leggja ýmislegt á sig til að fá sögu hjá pabba, meira að segja að hátta kl. átta.

Ásta Lóa stækkar og stækkar, enda orðin 5 mánaða. Já FIMM mánaða. Bíddu við, var það ekki bara í fyrradag sem ég átti hana? Finnst eins og það hafi verið í síðustu viku sem ég var ólétt. Við vorum nú að rifja það upp hér yfir kalkúninum á gamlárskvöld þegar ég í fyrra var með einhverja magapest og hafði litla lyst á matnum. Þá grunaði okkur ekki að lítil Ásta Lóa væri búin að hreiðra um sig í maganum á mér, það var víst engin magapest á ferðinni heldur bara gamaldags ólétta. Nú er þessi gleðigjafi farin að velta sér og teygir sig í allt sem fyrir augu ber. Hún er mjög hrifin af rauðum lit, enda er hann mjög fallegur. Greinilega mikil smekkmanneskja hún Ásta Lóa:) Hún er hætt að nota vögguna, finnst heldur ekkert gaman að liggja, vill frekar sitja í stól og spjalla við okkur hin. Og bráðum fær hún líka að borða eins og við hin, held að hún verði hrifin af því.

En nú er umrædd dama vöknuð svo ég læt hér staðar numið að sinni. Ég ætlaði að setja inn myndir en á í vandræðum með að koma þeim í albúm svo það bíður betri tíma.
Kveðja úr Unufellinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband