Af jólasveinum og jólaskemmtunum

Nú eru fjórir jólasveinar komnir til byggða og hafa mætt hér með glaðning í skó. Reyndar vakti sendingin frá Giljagaur litla lukku, enda hvað er gaman að fá sokkabuxur daginn eftir að hafa fengið gammósíur? Svo það voru svekktar systur sem sátu hér frammi yfir barnaefninu á laugardagsmorguninn þegar húsmóðirin kom á fætur. Og þessi Giljagaur hafði ekki einu sinni fyrir því að gefa litlu systur í skóinn. Ætli hegðun þeirra kvöldið áður hafi skipt þarna máli? Þær voru nú ekkert svo vissar um það en til að tryggja sig voru þær mun þægari á laugardagskvöldið. Og skipti það einhverju máli? Já greinilega því Stúfur færði þeim nælu með mánaðarsteininum þeirra, ja nema auðvitað Ástu Lóu. Mikið eru þeir lengi að fatta að það er komið nýtt barn á heimilið.

Þvörusleikir verður nú samt lengi í minnum hafður fyrir að vera fyrsti jólasveinni sem gaf Ástu Lóu í skóinn. Það er sko ekki nóg með að hann hafi gefið stóru stelpunum bleikan Hello Kitty síma með nammi í, heldur fékk Ásta Lóa flotta hringlu frá honum. Loksins!

Systurnar eru því orðnar mjög sáttar við jólasveinana núna. Og hafa fengið sönnun fyrir því að hegðun, atferli og framkoma skipta máli! Enda vita það allir jólasveinar að það er ekkert gaman að gefa óþekkum börnum í skóinn.

Í gær, sunnudag, var jólaball í sunnudagaskólanum og auðvitað létu systurnar í Unufelli sig ekki vanta. Eiginlega vantaði þær í helgistundina áður en farið var að dansa í kringum tréð en þær voru mættar áður en þeir Giljagaur (sá leiðindasokkabuxnagaur) og Bjúgnakrækir mættu. Það tekur jú tímann sinn að búa sig á ball, það þarf að baða sig og skoða sig í speglinum og greiða sér og spegla sig, og auðvitað að klæða sig og  kíkja á sig í speglinum og snúa sér í hringi. Og þá er hægt að fara í rauðu jólakápurnar og skottast af stað, eftir að hafa skoðað sig í speglinum. Þeir voru stórkostlega skemmtilegir þessir jólasveinar, m.a.s. Giljagaur! Og svo fengu þær systur nammi!

En þær áttu nú líka eftir að hitta hann Stúf! Eftir hádegi fóru þær á jólaskemmtun í Gerðubergi með Ingu 'frænku', hún á bara barnabörn í Danmörku og fékk því stóru stelpurnar lánaðar. Og þvílík gleði, þær ljómuðu þegar þær komu heim, búnar að hitta Stúf og horfa á brúðuleikhús, fá heitt kakó og vöfflur með rjóma, að ógleymdum piparkökum. Ásta Lóa fékk nú ekki að fara með en í staðinn fékk hún stóran pakka frá Ingu og Matta. Í honum var teppi, samfella, sokkabuxur og lítill sætur bangsi.

Nú efast þær systur ekki lengur um tilvist jólasveinanna enda búnar að hitta þá þrjá núna. Og þá er bara að sjá hvað kallinn hann Pottaskefill kemur með. 


Stekkjarstaur mættur

Jæja þá er fyrsti jólasveinninn kominn á stjá, það var hann Stekkjarstaur sem kom færandi hendi með leggings handa stóru stelpunum. Hann hefur líklega ekki verið búinn að frétta af Ástu Lóu því hún fékk ekki neitt frá honum, en Edda Sólveig skrifaði fallegt bréf til hennar í hans stað.

Trú dætra minna á tilveru jólasveinanna hefur reyndar dalað og verð ég nú að viðurkenna minn þátt í því. En það dregur nú samt ekki úr spennunni við að skórinn sé kominn út í glugga. Kannski frekar að kröfurnar séu orðnar meiri á hvað fer í skóinnErrm 

Í fyrrakvöld fengum við góða gesti, það var Guðný frænka (afasystir þeirra) og Gudda dóttir hennar. Gudda á þrjár stelpur, 20, 13 og 11 ára og kom færandi hendi með föt sem stelpurnar hennar eru vaxnar upp úr. Það var nú heldur betur gaman að fá þessa sendingu og stelpurnar voru í því að máta föt í gær. Sumt geta þær notað strax en svo er annað sem þær þurfa að stækka upp í og eiga þær nú heldur betur eftir að gera það. Ásta Lóa fékk nú líka glaðning frá þeim mæðgum og bíður hún spennt (eða er það mamman) eftir að passa í þau föt. Ætli það líði nokkuð á löngu áður en hún vex upp úr þeim.

Kær kveðja, og verið nú góð svo jólasveinninn staldri við hjá ykkurWink
Lóa 

 


Að beygla orð

Edda Sólveig er nú komin í 2. bekk og er alltaf að læra eitthvað nýtt. Um daginn hafði hún eitthvað kynnst fallbeygingu og var mikið rætt um hvernig beygja skuli hin og þessi orð með hér er, um, frá og til. Fríða Valdís lét ekki sitt eftir liggja og hafði gaman af að spá í hvernig hin og þessi orð beygjast. Eitthvað skolaðist þetta þó til í sex ára kollinum því daginn eftir kom hún til mín og sagði: Mamma, hvernig beyglar maður aftur orð?

Og meira af Fríðu Valdísi. Um daginn var Ásta Lóa skírð og fyrir skírnina var mikil spenna hjá þeim systrum og mikið spurt um skírnina. Fríða mín talaði þó alltaf um skíringu, hvenær verður skíringin og í skíringunni verður þetta og hitt. Að ógleymdum skíringarkjólnum:) Eða á þetta kannski að vera skýring?

Annars er nú alltaf jafn gaman að því þegar þær systur sjá sig knúnar til að leiðrétta málfræði móðurinnar. Og að sjálfsögðu er mamman himinsæl með þennan þankagang dætranna, þó hún geti nú ekki alltaf tekið undir með þeim. Að minnsta kosti talar hún enn um fætur en ekki fóta:)

Nú heyri ég að Ásta Lóa er vöknuð, hún er nú meira yndið, liggur bara og spjallar við sjálfa sig, skoðar fingurna sína og bíður róleg eftir mömmu sinni. Fleiri frásagnir af stóru systrunum og málfræðinni bíða því betri tíma.


Af öllu hjarta:)

Í gær fórum við Bárður með Ástu Lóu í ómskoðun hjá hjartalækni. Og að sjálfsögðu er ekkert að, fullkomlega heilbrigt hjarta sagði læknirinn. Hljóðin eru eðlileg hjartahljóð sem heyrast stundum hjá ungbörnum því þau eru með svo lítinn brjóstkassa, svo hætta þau að heyrast þegar börnin eldast og stækka. En hins vegar vilja læknar alltaf athuga málið og fullvissa sig og foreldra um að allt er eðlilegt. Og það er það svo sannarlega hjá Ástu Lóu, hún getur sko elskað okkur af öllu hjarta, af öllu sínu heilbrigða hjarta:)

Nú vitum við hvernig hjarta Ástu Lóu lítur út og efumst ekki um að hjartalagið verði líkt hjartalagi og hjartahlýju systra sinna. Mér vöknaði næstum um augun í gærkveldi þegar ég varð vitni að umhyggju Fríðu Valdísar fyrir stóru systur sinni. Ég var að fara í háttinn þegar Fríða Valdís kom fram á klósettið, hún var nú hálfsofandi en þegar hún var búin sagði ég henni að skríða aftur upp í. Ég bjóst nú hálfpartinn við að hún vildi koma upp í til mín en neinei, hún fór inn í herbergið sitt og áður en hún skreið upp í breiddi hún betur yfir Eddu sína. Þvílík umhyggja. Svo sofnaði hún með bros á vör og sama gerði mamman skömmu seinna.


Vigtun

Já ekki má gleyma því að litla daman er orðin ÞRIGGJA MÁNAÐA (hvað varð um tímann???) og rúmlega það. Hún var í skoðun í liðinni viku, orðin 5.555 gr og 59,5 sm. Sem þýðir að á þessum 15 vikum sem hún hefur lifað hefur hún þyngst um rúm 2,3 kg og lengst um 10,5 sm. Og orðin svo flott og dugleg, teygir sig eftir öllu og skellihlær stundum og hjalar heilmikið.

Barnalæknir skoðaði hana og lagði hún sig alla fram við að pissa á hann en honum tókst naumlega að skjóta sér frá. Í fyrstu lét hún sér í léttu rúmi liggja að láta hann handfjatla sig en þegar hann tróð spaða upp í hana var henni nóg boðið og lét hann sko heyra það. Þvílík reiði sem fólst í öskrinu og án efa var hún soldið sár líka við mömmu fyrir að leyfa þetta. Og þegar hún var að jafna sig kom hann bara og stakk hana í rassinn! Þvílík framkoma við litla prinsessu. En hún jafnaði sig fljótt á þessu, ekki lætur maður einn lækni buga sig, er það nokkuð?

Við þurfum svo að hitta hjartalækni og láta 'ómskoða' hjartað í henni því eitthvert hljóð heyrði læknirinn, hann líkti því við fiðlustreng og sagði að venjulega væri þetta ekki neitt, bara mikið blóðflæði um litla æð. Og svo hverfur þetta þegar þau eldast. En það á samt að kíkja á litla hjartað, það verður gert á mánudaginn.

En það er alveg ljóst að við búum í fjölmenningarsamfélagi, og það er ansi áberandi hér í Breiðholtinu, því þennan hálftíma rúman sem við vorum þarna voru 3 önnur börn í skoðun og voru þau öll erlend að uppruna. Ein svört stúlka, ein asísk og ein frá Austur-Evrópu held ég. Og svo litla íslenska Ásta Lóa sem er bara flottust og þyngist og stækkar eins og hún fái borgað fyrir þaðSmile 


Ballettskólinn kominn í jólafrí

Þó ballettskólinn sé kominn í jólafrí erum við ekkert komnar í jólafrí frá blogginu, svo ekki hverfa alveg frá okkur þó langt sé á milli færlsna, það er bara húsmóðirin sem er ráfandi í mjólkurþoku að reyna að finna réttu leiðina að verkum hversdagsins. En örvæntum ekki, það er verið að koma upp vegvísum, það er alveg stolið úr mér hvað steinahrúgurnar kallast sem notaðar voru hér áður þegar allir ferðuðust gangandi. Vitiði hvað ég er að meina? Sko, svona er maður orðinn, allt vit sogast úr manni:)

En sem sé, síðustu tímarnir í ballettinum voru á fimmtudaginn, mikill léttir hjá móðurinn en söknuður hjá dætrunum. Við erum búnar að fara í ballettskólann, sem staðsettur er í safnaðarheimili Háteigskirkju, tvisvar í viku síðan um miðjan september en fáum nú smápásu þaðan. Edda er tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum, Fríða er enn í forskólahóp 1x í viku, á fimmtudögum. Og auðvitað eru dæturnar hæstánægðar í dansinum og flottari ballerínur sjást varla(!) svo mamman lætur sig hafa þetta, með bros á vör:)

Að venju var ballettsýning fyrir foreldra á fimmtudaginn og mikið svakalega var það gaman. Þær eru svo flottar og hafa tekið gífurlegum framförum. Edda Sólveig er líka mjög dugleg að æfa sig heima og býr til heilu dansana. Fríða mín er minna fyrir að sýna dans heima en gerir það þó við og við. Svo leiðist nú ömmu Eddu ekkert að horfa á þær dansa, enda hafði hún mikla ballettdrauma sjálf á sínum yngri árum.

Nú er bara að sjá hvort Ásta Lóa fylgi í fótspor systra sinna, hún sýndi reyndar mikla takta í þá átt í móðurkviði, held að spörkin hafi verið ballettspor. Svo steig hún niður í þriðju pósisjón í 6 vikna læknisskoðuninni, eins og þaulvön ballerína, svo hún verður eflaust búin að ná systrum sínum áður en langt um líður:)

Myndir frá sýningunni verða að bíða betri tíma, þar sem tæknin er enn að stríða okkur hérna.


Ásta Lóa skírð

Yndislegur dagur er að baki. Ásta Lóa var skírð í dag hér heima í Unufelli og var athöfnin mjög falleg og veislan skemmtileg með góðum mat og góðum gestum. Undanfarnir dagar og eiginlega vikur hafa farið í undirbúning fyrir þennan stóra dag og ekki laust við spennufall í fjölskyldunni nú þegar allt er afstaðið.

Við fengum frábæran kokk til að koma og elda tvo pottrétti, nauta- og kjúklinga. Reyndar kom hann fyrst á fimmtudagskvöldið til að elda kjúklingaréttinn og leyfa okkur að smakka og það er nú nokkuð sem vel er hægt að venjast, það er að fá mann heim til að elda kvöldmatinn, þið ættuð bara að prufa það! Á föstudaginn eldaði hann nautaréttinn og kom svo aftur fyrir veisluna til að elda kjúklinginn. Þetta var nú snilldarhugmynd hjá húsbóndanum að fá vanann mann í starfið, enda létti þetta töluvert mikið undir hjá húsmóðurinni. Skírnartertan var keypt í bakaríi, svo það var nú ekki mikið sem foreldrarnir þurftu að gera fyrir utan náttúrulega að taka til og þrífa og var það nú ærið verk, en við fengum góða hjálp, Fríða amma og Einar frændi voru mjög dugleg.

Ljósaljósið hún Ásta Lóa lét sér nú fátt um finnast um allt tilstandið en til hægðarauka fyrir mömmu sína svaf hún mestan part dagsins og gat því vakað soldið í veislunni og heillað alla gestina, partíljónið sem hún er. Athöfnin var mjög falleg, sr. Sigfinnur Þorleifsson skírði hana. Einar móðurbróðir og Kalla föðursystir Ástu Lóu voru skírnarvottar. Aðrir gestir voru: Edda amma, amma og afi, Hjálmar og Snorri, Sigga, Sigurjón og Valdimar, Þórður, Þóra og Mikael Aron, Ragnhildur og hennar fjölskylda, Fríða frænka og börnin hennar, Hulda Ragnheiður og Guðrún Kristín, og Hilmar maður Köllu. Vonandi er nú ekki að gleyma neinum. En á morgun verður annar í veislu, ekki getur húsmóðirin torgað öllu sem eftir er, þó mathákur sé.

Ásta Lóa fékk margar fallegar gjafir: peninga frá Eddu ömmu, fallegan kjól og húfu og sokka í stíl sem Fríða amma prjónaði, bleikan pels frá frændum sínum, góðan matardisk og smekk frá Ragnhildi og fjölskyldu, skokk, peysu og smekk frá Fríðu frænku, skartgripaskrín frá Þórði og Þóru, englastyttu frá Huldu Ragnheiði, gullkross frá Köllu og Hilmari og sjálfsagt er nú mamman að gleyma einhverju í augnablikinu. Já Edda Sólveig gaf henni dót sem hún átti, lítinn sætabrauðsdreng:) Stóru systurnar fengu nú líka gjafir, gullkross frá Köllu og Hilmari, fallegt skartgripaskrín frá Þórði og Þóru og englastyttu frá Huldu, að ógleymdri myndinni Mamma mia frá Eddu ömmu (og þvílík gleði!).

Reyndar var nú eitt sem skyggði á veisluna í huga móðurinnar. Þannig er að skírnarskálin sem er nú eiginlega erfðagripur frá Lóu ömmu og margir hafa verið skírðir upp úr, meðal annars móðir og eldri systur skírnarbarnsins, brotnaði þegar of heitu vatni var hellt í hana, hún sprakk í þrjá hluta. Og þá fór mamman að gráta. Hágráta meira að segja. En það voru aðeins nokkrar mínútur í að gestirnir færu að koma og til að bjarga málunum var önnur skál notuð og botninn úr gömlu skálinni settur í hana. Sr. Sigfinnur skildi vel þær tilfinningar sem þarna lágu að baki og sagði að nú væri allt heilt, vatnið lagar allt. Svo í rauninni var Ásta Lóa skírð úr skálinni sem Lóa mamma hennar var skírð úr og var áður í eigu Lóu langömmu hennar, svo þetta kom nú ekki að mikilli sök.

En þessi dagur er nú líka sérstakur hjá foreldrunum, þau áttu nefnilega 8 ára brúðkaupsafmæli. Já hugsa sér, það eru liðin átta ár síðan Bárður strunsaði á undan mér inn í Dómkirkjuna þar sem við giftum okkur í kyrrþey á köldu miðvikudagseftirmiðdegi. Honum fannst við eitthvað sein en ég var alveg róleg þar sem ég vissi að presturinn myndi ekki gifta neinn fyrr en við kæmum. Það var líka yndislegur dagur. Og svo má ekki gleyma því að Snorri heitinn, afi skírnarbarnsins, hefði orðið sjötugur í dag. Af því tilefni var einnig boðið upp á upprúllaðar pönnukökur með sykri, en það var eftirlæti hans.

Stóru stelpurnar voru mjög góðar og skemmtilegar eins og þeirra er von og vísa. Þær skemmtu sér vel í veislunni og voru bara afar ánægðar með daginn, enda búnar að hlakka mikið til.

En nú er skýringin búin, eins og Fríða orðar það. Og þá er bara jólaundirbúningurinn framundan.

Ætlunin var að setja hér inn myndir en vegna tæknilegra örðugleika verður það að bíða um sinn.

Langt síðan síðast

Já það er nú ansi langt síðan við sögðum fréttir úr Unufellinu, svo það er aldeilis kominn tími til, enda margt að frétta. Við erum t.d. búin að breyta baðherberginu, drullugulu veggirnir eru orðnir hvítir og grænu, ljótu flísarnar hafa vikið fyrir hvítum glansandi flísum og hlandguli gólfdúkurinn farinn og í staðinn komnar ljósar flísar. Nú er bara eins og maður sé í annars manns baði:)

Edda Sólveig er búin að missa aðra tönn, mjög sæt með stórt stórt skarð og pínu smámælt. Það hlakkaði líka í Fríðu minni þegar hún gat leiðrétt systur sína, það heitir SSúkkulaði, ekki þúkkulaði! Enda hefur hún oft fengið að heyra það frá Eddu þegar hennar hljóð eru ekki rétt. 
Annars gengur þeim systrum vel í skólanum og í ballettinum. Og þær eru sko farnar að hlakka til jólanna. Kannski eignast þær þá Mamma mia myndina en við stóru mæðgurnar þrjár fórum í bíó um daginn og það var sko GAMAN! ABBA-lögin hafa hljómað hér æ síðan og bíður Edda spennt eftir að geta séð myndina aftur.

Litla ljósaljósið okkar verður svo skírð á morgun, laugardaginn 29. nóvember. Undanafarna daga hefur allt verið á fullu í undirbúningi hér heima, enda nóg sem þurfti að taka til og þrífa. Hér er mynd af dömunni sem er nú orðin þriggja mánaða og viku gömul.

Í sparikjól

En á næstu dögum koma fleiri  myndir inn og fullt fullt af nýjum fréttum af systrunum í Unufelli.


Maður á bara að lifa eins og maður er!

Nokkuð merkilegt gerðist hér í kvöld, hann Bárður Örn Bárðarson varð kjaftstopp! Og það hefur ekki gerst síðan 1974 að mig minnir. Þau feðgin Bárður og Fríða Valdís voru eitthvað að þrátta og það endaði með að Fríða sagði við pabba sinn: Ég er ég  og þú ert þú, og maður á bara að lifa eins og maður er! Við þessu átti pabbinn engin svör.


Edda missti tönn

Ég missti tönn á fimmtudaginn, sjáiði bara: 

Vantar tönn

Er ég ekki sæt með svona skarð? Mér finnst það og líka ömmu og mömmu og bara öllum held ég. Ég missti hana í skólanum þegar ég var að borða nestið mitt og allir krakkarnir í bekknum komu til mín að sjá. Þetta er fimmta tönnin sem ég missi, áður voru farnar 4 í neðri góm. Ég hef samt bara fengið 2 fullorðinstennur en á fimmtudaginn fór ég til tannlæknis sem sagði að fullorðinstennurnar í neðri góm komi bráðum upp, þær þurfa bara fyrst að búa sér til pláss með því að ýta augntönnunum í burtu. Ég á svo að koma aftur til þessa tannlæknis eftir tvö ár og fá einhvern boga í neðri góminn til að halda tönnunum á sínum stað svo plássið minnki ekki. Og líklega þarf ég svo að fá spangir seinna meir. Þetta sagði tannlæknirinn og gaf mér svo verðlaun því ég var svo dugleg hjá honum. Ég valdi mér prumpublöðruGrin Og ég plataði pabba og Fríðu og alla bara til að setjast á hana. En á endanum sprakk hún Frown Ég bara verð að fá aðra prumpublöðru þó mamma segi að maður framleiði nóg prump sjálfur án þess að hafa prumpublöðru.

Bráðum missi ég aðra tönn því hin framtönnin er laflaus. Mamma segir að þetta sé svo skrítið, fyrst var hún voðavoðaglöð þegar tennurnar komu og nú er hún aftur glöð þegar þær fara. Samt segir hún að þetta sé merki um hvað ég stækki hratt og tíminn fljúgi áfram, ég sé bara að verða fullorðin. Ja, alla vega unglingur segir mamma (og andvarpar).

En ég verð að segja ykkur smá af systur minni, henni Fríðu Valdísi. Sko á fimmtudaginn áttum við báðar að fara í ballett en af því að ég átti tíma hjá tannlækninum (og búin að bíða leeengi eftir honum) fór ég ekki en það þurfti einhver að fara með Fríðu. Svo Fríða hringdi í frænku okkar hana Fríðu, og þegar Arnar maðurinn hennar svaraði í símann sagði Fríða: Er Fríða frænka heima? Okkur mömmu fannst þetta svo sætt. En auðvitað fór Fríða frænka með nöfnu sína í ballettinn, enda er Fríða frænka frábær. Hei þetta er kúl, Fríða frábæra frænka LoL

Hér er mynd af okkur systrum sem mamma tók áður en við fórum í skólann á fimmtudaginn, Fríða með allar sínar tennur pikkfastar en ég með tvær lausar tennur.

Lausar tennur og fastar tennur

Knús og kossar,
Edda Sólveig

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband