18.10.2008 | 17:59
Fríða byrjuð í Plútó
Ég er núna byrjuð í Plútó (frístundaheimilinu í Fellaskóla) og það er sko gaman enda eru næstum allar bekkjarsystur mínar þar. Ég er búin að fara einu sinni og hlakka mikið til að fara næst en ég verð á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Það er því sko nóg að gera hjá mér því ég þarf líka að læra heima og lesa heima, á hverjum degi.
Núna er pabbi út í Kaupmannahöfn og við söknum hans mikið, sérstaklega litla systir held ég því í gærkveldi grét hún og grét. Við höfum bara aldrei heyrt annan eins grátur. En hér er mynd af henni sofandi, náttfötin minna mig nú bara á karatebúning. Er hún litla systir mín ekki falleg?
Það var samt gaman í gærkveldi því við fengum að horfa á Bróðir minn Ljónshjarta. Hún er svo skemmtileg og spennandi og við urðum pínu hræddar, en það var allt í lagi því mamma horfði með okkur. Við fengum líka vínber og pínu nammi og máttum svo sofa í pabbaholu því hann var ekki heima.
Knús og kossar,
Fríða Valdís
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2008 | 17:18
Litla daman orðin 8 vikna
Já það eru liðnar 8 vikur og tveir dagar síðan sú litla kom í heiminn. Mikið líður þetta hratt, hún er orðin svo mannaleg og byrjuð að verða smá bolla. Þessi mynd var tekin í vikunni:
Hún er auðvitað mjög dugleg, er m.a.s. farin að teygja út hendina í leikfang sem hangir í vöggunni og spjalla við það. Og hún hefur sko frá mörgu að segja og þykir reyndar mjög gaman að spjalla við pabba sinn og ekki síður að hlusta á hann, ennþá að minnsta kosti:)
8.10.2008 | 23:53
Grenjandi rigning - aftur
Haustið er yndislegur árstími, ef frá eru taldar haustlægðirnar. Í dag fengum við að kynnast ólíkum hliðum haustsins og já íslenskri veðráttu eiginlega. Yndislegt haustloftið lék um okkur í morgun þegar við fórum út, alveg stillt en svo ferskt og gott loft með angan af laufi og næturfrostið að hörfa undan sólinni.
Eftir annasaman morgun hjá Ljósaljósi sem fólst í því að kúka upp á bak (alfarið skrifað á nýju VIP Baby bleiuna) og fara í bað í kjölfarið, var hún sett í vagninn og arkað af stað með stóru stelpurnar í skólann. Já við fórum snemma út í morgun. Eftir viðkomu í bakaríinu tókum við hús á Eddu ömmu. Já hún er loksins komin heim úr hvíldarinnlögninni og þá er nú auðveldara að heimsækja hana Amma var nú aldeilis glöð að sjá okkur og við glaðar að sjá hana. Ljósaljós brosti og spjallaði heilmikið við ömmu sína og heillaði líka heimilishjálpina upp úr skónum. Við buðum ömmu út í göngutúr en hún treysti sér ekki, hún sem hefði haft svo gott af því að koma út í góða loftið og fallega veðrið.
Við fórum svo heim undir hádegið og þá var enn svona yndislegt veður. Mamma ákvað því að fara aftur út að ganga þegar stelpurnar væru búnar í skólanum og taka með okkur nesti og fara á bókasafnið. Og við gerðum þetta, nema hvað þegar við fórum af stað hafði kólnað allverulega og svo fór að rigna
Við létum okkur nú hafa það að arka á bókasafnið í Gerðubergi, enda þurftum við að skila myndinni Benjamín Dúfa. Það voru rennblautar mæðgur sem gengu inn á bókasafnið og skiptu á myndum, fengum Jón Odd og Jón Bjarna í staðinn. Nestið borðuðu stelpurnar svo á kaffihúsinu í Gerðubergi áður en við héldum heim. Mikið svakalega var nú mömmunni kalt enda hafði úlpan blotnað í gegn.
Þessar yndislegu stelpur mínar fóru svo að læra þegar við komum heim og Ljósaljós bara svaf áfram. Og svo horfðum við auðvitað á myndina og ekki leiddist þeim á meðan. Ég las bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna fyrir þær í fyrra en þær mundu nú ekki mikið eftir því. Svo þá get ég lesið þær aftur. En fyrst þarf ég að klára Bróðir minn Ljónshjarta og svo bíður Benjamín Dúfa líka eftir því að vera lesin, ásamt bókinni Fjör í fyrsta bekk. Þær eru mjög spenntar yfir Ljónshjarta, enda er hún bæði spennandi og skemmtileg.
Það er annasamur dagur framundan en líklega förum við Ljósaljós ekki í göngutúr eins og í morgun, þar sem spáð er roki og rigningu.
Góða nótt,
Mamma og stelpurnar þrjár
7.10.2008 | 23:59
Í hnotskurn - Ljósaljós
Bráðum eru 7 vikur frá því Ljósaljós kom í heiminn og því ekki úr vegi að leyfa ykkur að kynnast henni soldið. Við lögðum því fyrir hana nokkrar spurningar.
-Nafn?
Ekki vitað en kallaðu mig bara Ljósaljós eða Litlusystur.
-Hvar er best að vera?
Í fanginu á mömmu.
-Uppáhaldssvefnstaður?
Hægra brjóstið á mömmu, eða vinstra... get ekki gert upp á milli þeirra.
-Uppáhaldstími?
Drekkutími auðvitað.
-Uppáhaldsmatur?
Mömmumjólk auðvitað.
-Uppáhaldslitur?
Ég er sæt í bleiku.
-Uppáhaldsskemmtistaður?
Fangið á pabba mínum.
-Uppáhaldsleikfang?
Síða hárið á systrum mínum.
-Hvað er framundan?
Stækka stækka stækka. Svo auðvitað að brosa og spjalla við mömmu og pabba og systur mínar.
-Eitthvað að lokum?
Ég áskil mér rétt til að skipta um skoðun.
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.10.2008 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2008 | 12:32
Grenjandi rigning
Í dag er grenjandi rigning og hífandi rok, allt svo grátt að sjá út um gluggann. Okkur Ljósaljósi finnst því voðagott að geta bara kúrt heima en stóru stelpurnar þurftu auðvitað í skólann, en þær voru svo heppnar að pabbi gat keyrt þær þannig að ekki fuku þær í dag. Og það á víst að bæta í vindinn.
Síðasta vika var ansi annasöm hjá okkur. Það var auðvitað ballettskóli á þriðjudag og fimmtudag. Við heimsóttum líka Eddu ömmu á Heilsuverndarstöðina og fórum á bókasafnið. Við fórum líka í göngutúra. Svo var auðvitað 6 vikna skoðunin. Ljósaljós er auðvitað flottust og er orðin 54,5 sm og 4220 gr. Þessa dagana er hún upptekin við að æfa brosið sitt og svo er hún auðvitað farin að hjala heilmikið.
Við tókum því rólega um helgina en hápunktur hennar var auðvitað þátturinn Gott kvöld á laugardagskvöld en þar kom pabbi fram, flottur eins og alltaf
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2008 | 11:36
Fyrsti snjórinn kominn
Í gærkveldi (2. október 2008) kom fyrsti snjórinn hér í Reykjavík, hann var víst eitthvað fyrr á ferðinni fyrir norðan. Þó pabbi hafi ekkert verið of sæll með að þurfa að skafa af bílnum voru þær systur mjög kátar að fara út í snjóinn og hlökkuðu þær mikið til frímínútna í skólanum.
Kuldagallarnir voru dregnir fram og þar sem þær systur voru óvenjusnemma tilbúnar gafst tími til myndatöku áður en þær fóru af stað.
2.10.2008 | 12:01
Bara einn koss
Tilsvör barna eru oft á tíðum stórkostleg. Hér kemur eitt:
Mamma: Hvernig gekk í skólanum í dag?
Fríða Valdís: Vel. Andrés kyssti mig bara einu sinni.
Bjútíprinsessan Fríða Valdís í 1. bekk er umsetin af strákunum í bekknum, það er sérstaklega þessi Andrés sem reynir að lauma á hana kossi og kossi. Stundum á kinnina en stundum á munninn. Kennarinn sagðist nú vera að reyna stoppa þetta og er greinilega að ná árangri, þar sem honum tókst bara að kyssa hana einu sinni í gær.
En auðvitað er drengurinn skotinn í henni, hver væri það ekki?
30.9.2008 | 23:35
Fyrirmyndarnemendur
Fyrirmyndarnemandi sagði kennarinn hennar Eddu í foreldraviðtali í dag. Hún er iðin og samviskusöm, áhugasöm og sýnir miklar framfarir. Allir kennarar ánægðir með hana og bera henni vel söguna. Það er sko gaman að heyra svona um barnið sitt. Edda Sólveig hefur líka verið mjög ánægð í skólanum það sem af er og finnst gaman. Minnist aldrei á að vilja ekki fara í skólann, en það var daglegur söngur í fyrra.
Kennarinn hennar Fríðu Valdísar er líka mjög ánægður með hana. Hún er dugleg og áhugasöm, getur reyndar verið lengi með verkefni og að koma sér að verki. Það kom mér ekkert á óvart, við þekkjum þetta hérna heima. En hún er sko fyrirmyndarnemandi líka. Svo fer hún að fá heimanám og lestrarbók svo það eru spennandi tímar framundan. Og líklega verður hún fljót að ná tökum á lestrinum ef við erum dugleg að æfa hana. Fríðu finnst líka gaman í skólanum og er hrifin af kennaranum sínum, finnst hann ansi skemmtilegur.
Þær systur eru sem sé kátar og duglegar skólastelpur og foreldrarnir auðvitað að springa af stolti.
29.9.2008 | 17:41
Fyrsti göngutúrinn
Loksins höfum við farið í göngutúr. Ég vildi ekki fara með þá litlu út í vagni fyrr en hún nálgaðist 4 kílóin og svo hefur nú ekki viðrað sérstaklega vel síðustu viku. En í dag var fínt veður og gripum við tækifærið við mikinn fögnuð stóru systranna. Einhverra hluta vegna var Ljósaljós ekki mjög hrifin til að byrja með en svo þegar vagninn fór af stað sofnaði hún undir eins. Hér má sjá þær systur með vagninn (og líka í septemberalbúminu).
Þetta var fínn göngutúr og greinilegt að Ljósaljós líkaði hann vel því hún sefur enn, klukkutíma eftir að við komum heim, rumskaði ekki á leiðinni upp stigann og þegar hún var tekin úr gallanum og lögð í vögguna. Hún er líka svooo mikið ljós.
29.9.2008 | 13:30
Helgin að baki
Jæja þá er kominn mánudagur, róleg helgi búin en fullskipuð vika framundan. Já fullskipuð með ballettskóla og ungbarnaeftirliti og svo er ætlunin að kíkja á Eddu ömmu þar sem hún er í hvíldarinnlögn á heilsuverndarstöðinni. Svo er aldrei að vita nema við mæðgur byrjum í leikfimi, svona mæðrafimi hjá Hreyfilandi.
Sunnudagurinn var mjög rólegur hér í Unufellinu og dundaði hver við sitt. Edda Sólveig lærði nær allan daginn, enda náði hún að klára eina skólabók. Fríða Valdís hefur ekki enn fengið heimanám svo hún var upptekin við að leika sér og hlusta á hljóðbækur. Litlaljós hélt sér við uppáhaldsiðju sína, að drekka hjá mömmu sinni og hélt sko ekkert aftur af sér. Enda vaknaði mamman í morgun með brjóst á stærð við melónur.
Á föstudaginn fengum við góða gesti í heimsókn, Ragnhildi & co. Það er alltaf gaman þegar þau koma í heimsókn, þá er sko eitthvað fyrir alla: Stelpurnar fá vinkonur sínar að leika við og mamma fær vinkonu sína til að spjalla við og svo er nú Eiríkur einlægur aðdáandi Ljósaljóss En það eru nú reyndar allir.
Fleiri myndir í septemberalbúminu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)