25.9.2008 | 23:54
1 kíló
Nú er Litlaljós orðin 5 vikna - vá hvað tíminn líður hratt - og í tilefni af því tók ég nokkrar myndir af henni og setti í albúmið september2008. Hún splæsti nú ekki brosi á mig við það tækifæri enda hafði hún um annað að hugsa: næstu máltíð! Hér er sýnishorn, eins og sjá má var hún orðin óþolinmóð eftir brjóstinu og reyndi að sjúga á sér hendina, gerði allt til að vekja athygli á hungrinu.
Litla daman var líka vigtuð í dag og er orðin 4150 gr! Sem sagt búin að þyngjast um 1 kíló frá því hún fæddist, en þá var hún 3170 gr. Á þeim tveim vikum sem liðnar eru frá síðustu vigtun þyngdist hún um 550 gr. Enda finnst mér ég horfa á hana stækka. Neinei ekki svona hratt langar mig að hrópa á hana en veit að hún tekur ekkert mark á því enda held ég að hún stefni að því að ná systrum sínum fyrir vorið. Kannski ætti einhver að segja henni að það takist nú varla enda er góð sprettutíð hjá þeim núna.
En auðvitað fögnum við hverju grammi sem hún bætir á sig, betra hún en ég Gaman væri nú að fylgjast svona með vigtinni hjá mér, þá meina ég hversu hratt kílóin fara. Eða kannski væri það ekkert gaman...
Knús og kossar,
Lóa
24.9.2008 | 15:52
Sara afmælisbarn dagsins
Sara stóra systir okkar á afmæli í dag. Afmælisknús og kossar til þín elsku Sara.
Kv.
Edda Sólveig, Fríða Valdis og Litlaljós
22.9.2008 | 23:54
Afmæli Fríðu Valdísar
Fríða Valdís varð 6 ára um daginn og fékk TVÆR afmælisveislur, eina fyrir bekkjarsystur sínar og aðra fyrir fjölskylduna. Það var mikið húllumhæ þegar bekkjarsysturnar og vinkonur komu, 10 stykki af fjörugum 6 og 7 ára stelpum. Litla systir vakti óneitanlega mikla lukku og voru allar sammála um að hún væri mjög sæt, algjör dúlla bara, sumar áttu meira að segja mjög erfitt með að slíta sig frá vöggunni.
Stelpurnar fengu pizzusnúða og súkkulaðiköku. Svo var farið í stopp-dans en aðalfjörið í honum virtist snúast um að fá að stjórna tónlistinni en afmælisbarnið sá að mestu um það. Mamman var meira í því að reyna að fá stelpurnar til að dansa og halda tónlistinni innan ákveðinna desibila. Hún hafði nú ekki alltaf erindi sem erfiði. Allt gaman tekur enda og þó afmælisstelpan hafi viljað lengri veislu voru mamman og litla systir mjög fegnar þegar klukkan sló sjö og afmælisgestirnir tóku að tínast í burtu.
Daginn eftir var önnur veisla þar sem amma og afi, frændur og frænkur og vinir mættu. Það voru: Fríða amma og Valdimar afi, Ragnhildur, Margrét Sól, Þórhildur Rósa og Eiríkur Örn ásamt Þórarni frænda sínum, Hjálmar, Snorri og Einar, Fríða frænka, Arnar, Margrét Ásta og Stefán Freyr og Trausti, Hafdís, Jakob og Elín Ásta. Því miður treysti Edda amma sér ekki til að koma.
Það var sem sé mjög gaman að verða 6 ára og fá allar gjafirnar: Föt á Babyborn, barbísundlaug og barbídúkkur, leir, litabækur, púsl, kjól, nærföt og húfu, bratz-dúkku, blýant og strokleður, pening og eflaust eitthvað fleira sem gleymdist að telja upp. Að vísu hafa bratz-dúkkan og barbídúkkan á bikiníinu ekki sést síðan í afmælinu, það hefur verið gengið frá þeim á mjög góðan stað.
Edda er farin að hlakka til að eiga 8 ára afmæli, þá ætlar hún sko að bjóða bekkjarsystrum sínum og hafa tvö afmæli. En þá ætlar mamma nú að fá hjálp við að halda það, hún leggur aldeilis ekki aftur í að vera ein með barnaafmæli.
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.9.2008 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2008 | 16:15
Fyrir Söru:)
Hæhæ
Þessi síða verður helguð okkur systrum í Unufelli, Eddu Sólveigu, Fríðu Valdísi og Ljósaljósi sem hefur nú ekki fengið almennilegt nafn ennþá. Hér ætlar mamma að segja sögur af okkur og birta myndir fyrir ættingja og vini. Sara stóra systir sem býr nú í Ungverjalandi getur þá fylgst með okkur, hún var alltaf að segja mömmu að gera heimasíðu með okkur og hér er hún komin.
Í dag voru Edda og Fríða í skólanum, eins og alla mánudaga. Þær eru báðar í Fellaskóla, Fríða í 1. bekk og Edda í 2. bekk. Þeim finnst mjög gaman í skólanum, sem betur fer og eru líka rosalega duglegar þar. Fríða er búin kl. 13.30 en Edda ekki fyrr en 14.10 svo Fríða er svo heppin að hún fær að bíða í stofunni hennar Eddu, þannig að hún er eiginlega líka í 2. bekk Svo ganga þær heim saman þar sem mamma og litla systir bíða eftir þeim. Á þriðjudögum og fimmtudögum eru svo ballettæfingar, þannig að þær hafa nú nóg að gera stóru systurnar.
Meira síðar.