24.8.2009 | 23:58
Skóli skóli skóli
Nú er haustið handan við hornið og helsta merki þess er auðvitað að skólarnir eru byrjaðir. Gaman gaman
Það ríkti töluverð spenna hér í morgun þegar stóru stelpurnar gerðu sig klárar til að mæta á skólasetninguna, sem við Ásta Lóa fórum auðvitað á líka. Það var líka heilmikil stemmning í skólanum, greinilega allir spenntir, nemendur og kennarar líka, fyrir nýju skólaári. Edda Sólveig knúsaði Gunnar kennarann sinn þegar hún hitti hann aftur og Fríða Valdís hljóp í fangið á Bjarna gamla kennaranum sínum. En hún fær nýjan kennara í vetur, Bjarni þurfti víst að sitja eftir í 1. bekk og söknum við hans mikið, okkur líst samt vel á nýja kennarann, henni Elínu, og hlökkum mikið til að kynnast henni.
Ásta Lóa er líka byrjuð í sínum skóla, leikskólanum Sólgarði. Í dag var þriðji dagurinn í aðlögun og hún var ein í dag, í klukkutíma. Leikskólakennarinn sem var með hana hafði orð á að hún væri ákveðin ung dama. Hún öskraði svo mikið að strákurinn sem er líka í aðlögun var skíthræddur við hana og var farið með hann fram, greyið litla, fyrstu kynni hans af kvenþjóðinni byrja ekki vel. En sem betur fer öskraði hún ekki í klukkutíma en alveg fyrstu 10 mínúturnar og svo lék hún sér en lét samt heyra í sér aftur annað slagið. Á morgun mætir hún svo klukkan tvö og verður til hálffjögur, fær þá að drekka með hinum krökkunum.
Skólinn minn byrjar svo í næstu viku, það er því eins gott að aðlögunin gangi vel fyrir sig og daman verði orðin þokkalega sátt á leikskólanum, fjarri mömmufaðmi þar sem hún vill helst vera.
Kv.
Lóa og stelpurnar
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
æj hahahaha mér varð nú á að skellihlæja að óförum unga mannsins
Ragnheiður , 29.8.2009 kl. 23:30
Já þetta byrjaði ekki vel hjá honum. En nú er búið að skilja þau að, ekki bara vegna þess að hann grét svo mikið (og ekki bara undan henni) heldur kom í ljós að Ásta Lóa mín fílaði bara ekki fóstrann sinn, ungan mann með ljóst hár og ljóst skegg. Hún vill heldur ömmulega konu og er mun sáttari núna. Segið svo að maður geti ekki stjórnað þó mállaus sé
Edda, Fríða og Ásta Lóa, 31.8.2009 kl. 10:44
Litla rófan, maður veit svosem hvað maður vill þó lítill sé :)
Ragnheiður , 31.8.2009 kl. 21:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.