Orðin 7 ára:)

Úff hvað tíminn líður hratt! Á sunnudaginn átti Fríða Valdís afmæli, þessi yndislegi gleðigjafi er orðin 7 ára. Dagurinn byrjaði á að hún kom upp í til mín og vildi fá sinn afmælissöng og pakka og var himinsæl að fá bratz-dúkku og ekki minnkaði gleðin þegar allt í einu hringdi sími ofan í poka. Þar var þá afmælisgjöfin frá Eddu ömmu. Þær systur löbbuðu síðan í sunnudagaskólann og þar var sungið fyrir afmælisbarnið. Vinkonurnar komu svo í veislu kl. þrjú. Þið getið rétt ímyndað ykkur fjörið í 10 sjö og átta ára stelpumSmile Amma, afi og Einar komu svo í kvöldmat og það var engu minna fjör, afi meira að segja dansaði við stelpurnar. Þær systur fengu allar flotta ullarsokka sem amma prjónaði, með glimmeri meira að segja, Ásta Lóa fékk fallegan kjól og stóru stelpurnar köflótt vesti með hettu og loðkraga, svaka skvísulegt. Það þurfti nánast að múta Fríðu til að fara úr því áður en hún fór að sofa.

En þessi sjö ára stelpa ætlar ekki að læra ballett í vetur eins og undanfarin ár heldur stefnir hún ótrauð á fótbolta! Á morgun fer hún á fyrstu æfinguna og hlakkar mikið til. Það verður gaman að sjá hvernig henni líkar, vonandi bara vel því þetta er góð hreyfing fyrir hana og frábært tækifæri til að kynnast fleiri stelpum.

Af stóru og litlu systur er allt gott að frétta. Edda Sólveig fór í fyrsta balletttímann í dag og var mjög ánægð, gaman að vera komin aftur í ballettskólann sagði hún. Ásta Lóa er mjög dugleg í leikskólanum sínum, ja nema við að borða. Hún unir sér vel og leikur sér og virðist bara ánægð, sem er auðvitað alveg nauðsynlegt fyrir alla, það er ekkert auðvelt að skilja barn eftir sem er á orginu en vissan um að þetta hætti fljótt gerir manni kleift að halda áfram og líta ekki við. Reyndar grét hún ekkert síðast þegar hún fór þangað.

Knús og kossar elskurnar,

Lóa


Skóli skóli skóli

Nú er haustið handan við hornið og helsta merki þess er auðvitað að skólarnir eru byrjaðir. Gaman gamanSmile

Það ríkti töluverð spenna hér í morgun þegar stóru stelpurnar gerðu sig klárar til að mæta á skólasetninguna, sem við Ásta Lóa fórum auðvitað á líka. Það var líka heilmikil stemmning í skólanum, greinilega allir spenntir, nemendur og kennarar líka, fyrir nýju skólaári. Edda Sólveig knúsaði Gunnar kennarann sinn þegar hún hitti hann aftur og Fríða Valdís hljóp í fangið á Bjarna gamla kennaranum sínum. En hún fær nýjan kennara í vetur, Bjarni þurfti víst að sitja eftir í 1. bekk og söknum við hans mikið, okkur líst samt vel á nýja kennarann, henni Elínu, og hlökkum mikið til að kynnast henni.

Ásta Lóa er líka byrjuð í sínum skóla, leikskólanum Sólgarði. Í dag var þriðji dagurinn í aðlögun og hún var ein í dag, í klukkutíma. Leikskólakennarinn sem var með hana hafði orð á að hún væri ákveðin ung dama. Hún öskraði svo mikið að strákurinn sem er líka í aðlögun var skíthræddur við hana og var farið  með hann fram, greyið litla, fyrstu kynni hans af kvenþjóðinni byrja ekki vel. En sem betur fer öskraði hún ekki í klukkutíma en alveg fyrstu 10 mínúturnar og svo lék hún sér en lét samt heyra í sér aftur annað slagið. Á morgun mætir hún svo klukkan tvö og verður til hálffjögur, fær þá að drekka með hinum krökkunum. 

Skólinn minn byrjar svo í næstu viku, það er því eins gott að aðlögunin gangi vel fyrir sig og daman verði orðin þokkalega sátt á leikskólanum, fjarri mömmufaðmi þar sem hún vill helst vera. 

Kv.
Lóa og stelpurnar


Frá hjartanu

Edda Sólveig mín er svo einlæg í ást sinni á fjölskyldunni. Þegar ég sagði henni að afi væri kominn heim eftir mánaðar fjarveru á sjó spurði hún strax hvað við ættum að kaupa handa honum. Ég vissi nú ekki að við þyrftum að kaupa nokkuð en þá sagði hún - og það kom frá hennar dýpstu hjartarótum: Afi var að koma heim af sjónum, heldurðu að ég færi honum ekki gjöf!

 Edda Sólveig


Tíminn líður aldeilis hratt...

Nú er liðið ár og nærri sólarhring betur síðan ég lá og rembdist af öllum kröftum. Já Ásta Lóa er orðin eins árs!

Þetta er svo stórkostleg upplifun, að finna kollinn þrýsta sér út, sársaukinn fer um allan líkamann og ekkert annað kemst að en að losna við hann. Rembast og öskra og reyna að koma barninu út og svo gerist það. Kollurinn er kominn og fljótlega fylgir litli líkaminn á eftir, litli heiti líkaminn sem allt í einu er kominn ofan á magann minn. Þvílíkur léttir og þvílík fegurð sem við mér blasir. Lítil fullkomin stúlka horfir á mig dökkum, yndislegum augum. Fyrir nokkrum sekúndum vildi ég bara öskra, núna get ég ekki hætt að hlæja.

Ótrúlegt að þetta gerðist fyrir ári síðan en ekki bara nokkrum dögum. Hún var svo yndisleg svona nýfædd, horfði á okkur pabba sinn og leitaði svo eftir einhverju að sjúga og var fljót að ná tökum á brjóstinu. Svo lá hún heillengi á bringunni á mér. Þegar pabbi hennar var farinn fórum við að sofa og hún lá við hliðina á mér og gaf frá sér yndisleg værðarhljóð, henni leið greinilega vel.

Nú er þessi litla dama orðin ársgömul og alveg jafnyndisleg, þó kannski á annan hátt. Heimsins mesta frekja segja systur hennar, ég hugsa að hún komist alla vega í topp 20. Já hún er mjög ákveðin og vill gera flest sjálf en eins og er með þennan aldur er viljinn mun meiri en getan. Og hún er hætt á brjósti, ekki að eigin frumkvæði þó og hún er sko alls ekki sátt og lítið kát með mömmu sína þessa dagana.

Þessi eins árs dama er líka byrjuð á leikskóla, búin að fara tvisvar og finnst það gaman en bara þangað til mamma fer. Hún er eiginlega ekkert sátt við að missa mömmu sína úr augsýn og þá er bara öskrað og öskrað. Úff þetta verður ekki auðvelt en fóstrinn hennar er fullur bjartsýni á að vinna hana á sitt band. Á mánudaginn á ég að skilja hana eftir í klukkutímaFrown Hún öskraði allar tíu mínúturnar sem ég fór frá henni í dag. Þetta tekur sinn tíma og hún þarf sko að venja sig af þessari móðursýki sinni, og ætli mamman þurfi ekki líka að venjast að vera án hennar.

Afmælisstelpan er ekki farin að ganga en hún skríður áfram á rassinum og kemst ansi hratt yfir. Hún er líka farin að standa upp sjálf en ekki að ganga með en það kemur örugglega fljótt. Henni finnst mjög gaman að fara í bað með systrum sínum og lætur sko gremju sína skýrt í ljós þegar hún er tekin upp úr, enda er það ekki að hennar beiðni sem hún fer upp úr. Það er líka gaman þegar stóru systurnar nenna að leika við hana og leyfa henni að vera með inni í herbergi.

Það var nú engin stórveisla í dag, skammarlegt frá að segja. Hún fékk nú samt dúkku í afmælisgjöf og við mæðgur erum búnar að syngja oft fyrir hana afmælissönginn. Svo settum við kerti á súkkulaðiköku og Fríða blés fyrir hana. Ásta vissi ekkert hvað þetta átti nú allt að þýða, en ég sagði stelpunum að vera alveg rólegar, hún á eftir að fatta hvað afmæli erSmile

Já tíminn líður sko hratt. Sumarið senn á enda og skólinn hefst eftir helgi. Edda fer í 3. bekk og Fríða í 2. bekk. Hugsið ykkur, það er svo stutt síðan þær voru á leikskóla. Og nú er pabbi orðinn fimmtugur og við það tækifæri var nú meðfylgjandi mynd tekin af fjölskyldunni.

Knús og kossar,
Lóa

Fjolskyldan

 

Og hér er ein af afmælisstelpunni, svo kát með ísinn sinn:

Eins árs og kát með ísinn sinn


Obbosí!

Nú er hún mamma aldeilis að gleyma sér, skrifar bara ekkert í margar vikur. En annars er nú allt gott að frétta af okkur, ég stækka og stækka og systur mínar líka, rosalega duglegar við það segir mamma. Þær fóru í leikhús um daginn og sáu Kardemommubæinn. Ég fékk ekki að fara með, í staðinn fór ég til ömmu og öskraði á hana í nærri klukkutíma. Hún vill örugglega ekkert passa mig aftur, enda eins gott því ég vil bara vera hjá mömmu minni. Og jú hjá pabba líka. En það var víst mjög gaman í leikhúsinu, það var ljón og ræningjar og alls konar. 

Vitiði hvað. Bráðum fara stelpurnar í sumarfrí og þá verður sko gaman, þær verða alltaf heima til að leika við mig. Eða ég held það alla vega. Mamma er búin í sínum skóla, reyndar var hún ekki mikið í honum í vetur en hún tók eitt námskeið og fékk 9, samt var ég rosalega mikið veik þegar hún var að gera verkefnið sitt og vildi bara vera í fanginu hennar. Hún er sko algjör snillingur hún mamma mínCool

Mamma er búin að lofa mér að skrifa meira fljótlega því ég hef svo margt að segja ykkur, svo fylgist með.

Kær kveðja,

Ásta Lóa


Hún á afmæli í dag

Edda Sólveig er orðin 8 ára:) Mikil hamingja hefur ríkt hér í dag og mjög gaman að fá bekkjarsystur sínar í afmælið ásamt bestu vinkonunum, Margréti Sól og Þórhildi Rósu.

Það var líka frábært að fá Silfursafnið hans Páls Óskar, tveir geisladiskar ásamt DVD-diski.  Og það er sko búið að horfa og hlusta og horfa og hlusta og horfa. Ljúfa líf ljúfa líf, hljómar enn í hausnum á mér.

Hér er afmælisbarnið að opna pakkana
Edda opnar pakka


Hvað er Ásta Lóa stór?

Er Ásta Lóa svona stór? Vááá!

Þetta heyrist nokkrum sinnum á dag hérna hjá okkur og Ásta Lóa lyftir höndunum upp í loft, svakalega flottSmile Og hún er sko orðin stór og dugleg litla daman okkar. Hún verður 7 - já sjö - mánaða núna 21. mars og hún kann að sitja sjálf.

Ásta Lóa situr

Nú situr hún á gólfinu og leikur sér, voða glöð með sig. Það er ótrúlegt hvað hún er stöðug, ekki með neinn stuðning, bara svona öryggispúða aftan við sig. Og hún syngur, með sínu nefi að sjálfsögðu og rekur upp hin ýmsu hljóð við misjafnar, mjög svo misjafnar undirtektir systra sinna. En hey, maður verður að láta heyra í sér og vera ákveðin frá fyrsta degi til að verði ekki borin ofurliði af stóru stelpunum.

Ásta Lóa er alltaf að læra eitthvað nýtt. Það nýjasta er að klappa saman lófunum. Já hún fylgist vel með mömmu sinni klappa og klappa og klappa og svo stundum rata lófarnir hennar saman (Ástu Lóu altso, mömmu lófar rata alltaf saman).

Ásta Lóa er líka búin að læra á pabba sinn, enda er það nú auðlært. Þegar búið er að heilla hann, sem hún auðvitað er löngu búin að gera, er hægt að fá hann til að gera hvað sem er. Sko, maður rekur bara upp hljóð og þá er hann kominn. Svo brosir maður og þá lyftist pabbi allur upp og kætist og ef það virkar ekki til að hann taki mann í fangið þá þarf að sýna smá ákveðni (þið getið hiklaust lesið þetta sem frekju) og þá bara allt í einu er maður kominn í fangið á pabba sínumWink Mamma kann þetta, þó hún fari kannski heldur fínna í það en Ásta. Edda og Fríða kunna þetta og Ásta Lóa er sko orðin snillingur í þessu, slær okkur hinum algjörlega við.

Hér er önnur mynd af litla snillingnum, sjálfsagt er hún að hringja í pabba sinn þarna.Ásta Lóa að hringja

 

 

 

 

 

 


Dagbók

Edda Sólveig færði fyrstu dagbókarfærsluna sína inn í dag í litla fallega skrifblokk. Verð bara að leyfa ykkur að sjá hvað hún skrifaði.

Fríða las í dag. Jeg heirði að hún er orðin góð í að lesa. En ekki orðin jabn góð og ég. Og ég fór til ömmu. Það var gaman hjá ömmu.

Er eitthvað yndislegra en þetta?


Ný vinkona

Við Ásta Lóa fengum góða gesti í heimsókn áðan, Inga María gömul vinkona mín frá fyrstu háskólaárunum kom með dóttur sína sem er 11 mánaða. Við endurnýjuðum kynnin í gegnum facebook, ótrúlegt en satt. Og nú er Ásta Lóa búin að eignast nýja vinkonu, hana Önnu LiljuSmile

Það var gaman að fylgjast með þeim, önnur farin að ganga með en hin situr ekki sjálf. Þær fylgdust nú samt hvor með annarri af áhuga og tókust í hendur meðan þær borðuðu. Svo léku þær sér á gólfinu, Anna Lilja hafði nú samt þann hreyfanleika sem Ástu Lóu langar í en hann kemur. Það fór bara vel á með þeim og við hlökkum mikið til að hitta þær mæðgur aftur.

En hér er smá getraun. Hver sagði þetta: Pabbi, það á ekki að hafa skó undir borði! Vísbendingu má finna í Bréfi til Söru hér á síðunni ef þetta reynist of erfið spurningCool


Pabbarófa

Þær systur hafa nú alltaf verið hrifnar af pabba sínum, skiljanlega, en ég held að Ásta Lóa slái nú samt öll met í því. Strax í móðurkviði var hún orðin spennt fyrir honum, spriklaði og sparkaði þegar hún heyrði í honum. Það voru nú meiri lætin stundum. Núna verður hún alltaf kát þegar hún sér hann vælir ef hann sýnir henni ekki athygli, henni finnst bara pabbi sinn skemmtilegastur af öllumSmile

Þessari hrifningu fylgir líka afbrýðisemi. Já sex mánaða gamalt barnið verður afbrýðisamt ef pabbi er með stóru stelpurnar! Hún var nú ekki mjög gömul þegar hún vældi fyrst yfir þessu, bara um 4 mánaða minnir mig. Þá var Edda í fanginu á pabba sínum og Ásta sat í fanginu á mér og bara vældi þar til pabbi hennar tók hana. Og núna sýnir hún þetta enn betur. Í kvöld vorum við öll, klessufjölskyldan, í sófanum og horfðum á sjónvarpið, ja nema Ásta var lítið að fylgjast með því. Hún sat hjá mér og sönglaði og spriklaði kát, þar til hún fattaði að Fríða lá hjá pabba sínum. Þá orgaði hún, já hún vældi ekki heldur orgaði. Og hætti ekki fyrr en hún var komin þar sem Fríða var. Þá varð hún ofsakát og spjallaði við pabba sinn og söng og hló. Þvílík gleði.

Hér eru þau saman í fyrsta sinn, pabbi og Ásta Lóa.

Velkomin í heiminn


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband