Af jólasveinum og jólaskemmtunum

Nú eru fjórir jólasveinar komnir til byggða og hafa mætt hér með glaðning í skó. Reyndar vakti sendingin frá Giljagaur litla lukku, enda hvað er gaman að fá sokkabuxur daginn eftir að hafa fengið gammósíur? Svo það voru svekktar systur sem sátu hér frammi yfir barnaefninu á laugardagsmorguninn þegar húsmóðirin kom á fætur. Og þessi Giljagaur hafði ekki einu sinni fyrir því að gefa litlu systur í skóinn. Ætli hegðun þeirra kvöldið áður hafi skipt þarna máli? Þær voru nú ekkert svo vissar um það en til að tryggja sig voru þær mun þægari á laugardagskvöldið. Og skipti það einhverju máli? Já greinilega því Stúfur færði þeim nælu með mánaðarsteininum þeirra, ja nema auðvitað Ástu Lóu. Mikið eru þeir lengi að fatta að það er komið nýtt barn á heimilið.

Þvörusleikir verður nú samt lengi í minnum hafður fyrir að vera fyrsti jólasveinni sem gaf Ástu Lóu í skóinn. Það er sko ekki nóg með að hann hafi gefið stóru stelpunum bleikan Hello Kitty síma með nammi í, heldur fékk Ásta Lóa flotta hringlu frá honum. Loksins!

Systurnar eru því orðnar mjög sáttar við jólasveinana núna. Og hafa fengið sönnun fyrir því að hegðun, atferli og framkoma skipta máli! Enda vita það allir jólasveinar að það er ekkert gaman að gefa óþekkum börnum í skóinn.

Í gær, sunnudag, var jólaball í sunnudagaskólanum og auðvitað létu systurnar í Unufelli sig ekki vanta. Eiginlega vantaði þær í helgistundina áður en farið var að dansa í kringum tréð en þær voru mættar áður en þeir Giljagaur (sá leiðindasokkabuxnagaur) og Bjúgnakrækir mættu. Það tekur jú tímann sinn að búa sig á ball, það þarf að baða sig og skoða sig í speglinum og greiða sér og spegla sig, og auðvitað að klæða sig og  kíkja á sig í speglinum og snúa sér í hringi. Og þá er hægt að fara í rauðu jólakápurnar og skottast af stað, eftir að hafa skoðað sig í speglinum. Þeir voru stórkostlega skemmtilegir þessir jólasveinar, m.a.s. Giljagaur! Og svo fengu þær systur nammi!

En þær áttu nú líka eftir að hitta hann Stúf! Eftir hádegi fóru þær á jólaskemmtun í Gerðubergi með Ingu 'frænku', hún á bara barnabörn í Danmörku og fékk því stóru stelpurnar lánaðar. Og þvílík gleði, þær ljómuðu þegar þær komu heim, búnar að hitta Stúf og horfa á brúðuleikhús, fá heitt kakó og vöfflur með rjóma, að ógleymdum piparkökum. Ásta Lóa fékk nú ekki að fara með en í staðinn fékk hún stóran pakka frá Ingu og Matta. Í honum var teppi, samfella, sokkabuxur og lítill sætur bangsi.

Nú efast þær systur ekki lengur um tilvist jólasveinanna enda búnar að hitta þá þrjá núna. Og þá er bara að sjá hvað kallinn hann Pottaskefill kemur með. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ. Ætlaði bara að kvitta fyrir mig. Bið að heilsa. Kveðja, sarah og strákarnir 3.

sarah systir. (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband