7.12.2008 | 01:07
Ballettskólinn kominn í jólafrí
Þó ballettskólinn sé kominn í jólafrí erum við ekkert komnar í jólafrí frá blogginu, svo ekki hverfa alveg frá okkur þó langt sé á milli færlsna, það er bara húsmóðirin sem er ráfandi í mjólkurþoku að reyna að finna réttu leiðina að verkum hversdagsins. En örvæntum ekki, það er verið að koma upp vegvísum, það er alveg stolið úr mér hvað steinahrúgurnar kallast sem notaðar voru hér áður þegar allir ferðuðust gangandi. Vitiði hvað ég er að meina? Sko, svona er maður orðinn, allt vit sogast úr manni:)
En sem sé, síðustu tímarnir í ballettinum voru á fimmtudaginn, mikill léttir hjá móðurinn en söknuður hjá dætrunum. Við erum búnar að fara í ballettskólann, sem staðsettur er í safnaðarheimili Háteigskirkju, tvisvar í viku síðan um miðjan september en fáum nú smápásu þaðan. Edda er tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum, Fríða er enn í forskólahóp 1x í viku, á fimmtudögum. Og auðvitað eru dæturnar hæstánægðar í dansinum og flottari ballerínur sjást varla(!) svo mamman lætur sig hafa þetta, með bros á vör:)
Að venju var ballettsýning fyrir foreldra á fimmtudaginn og mikið svakalega var það gaman. Þær eru svo flottar og hafa tekið gífurlegum framförum. Edda Sólveig er líka mjög dugleg að æfa sig heima og býr til heilu dansana. Fríða mín er minna fyrir að sýna dans heima en gerir það þó við og við. Svo leiðist nú ömmu Eddu ekkert að horfa á þær dansa, enda hafði hún mikla ballettdrauma sjálf á sínum yngri árum.
Nú er bara að sjá hvort Ásta Lóa fylgi í fótspor systra sinna, hún sýndi reyndar mikla takta í þá átt í móðurkviði, held að spörkin hafi verið ballettspor. Svo steig hún niður í þriðju pósisjón í 6 vikna læknisskoðuninni, eins og þaulvön ballerína, svo hún verður eflaust búin að ná systrum sínum áður en langt um líður:)
Myndir frá sýningunni verða að bíða betri tíma, þar sem tæknin er enn að stríða okkur hérna.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Þegar ég lagðist á koddann í gærkveldi mundi ég orðið sem ég leitaði að, vörður. Gömlu leiðarmerkin heita vörður og voru hlaðnar úr steinvölum. Og þar sem ég lá á koddanum hugleiddi ég þessar vörður og hvernig við búum okkur til vörður í dag, ekki úr steinum heldur minningum. Og þetta var ansi djúp hugleiðing, kannski kemur hún aftur í hugann og þá er aldrei að vita nema hún rati hingað. En ég vildi bara láta ykkur vita að ég mundi orðið:)
Lóa
Edda, Fríða og Ásta Lóa, 7.12.2008 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.