Tíminn líður aldeilis hratt...

Nú er liðið ár og nærri sólarhring betur síðan ég lá og rembdist af öllum kröftum. Já Ásta Lóa er orðin eins árs!

Þetta er svo stórkostleg upplifun, að finna kollinn þrýsta sér út, sársaukinn fer um allan líkamann og ekkert annað kemst að en að losna við hann. Rembast og öskra og reyna að koma barninu út og svo gerist það. Kollurinn er kominn og fljótlega fylgir litli líkaminn á eftir, litli heiti líkaminn sem allt í einu er kominn ofan á magann minn. Þvílíkur léttir og þvílík fegurð sem við mér blasir. Lítil fullkomin stúlka horfir á mig dökkum, yndislegum augum. Fyrir nokkrum sekúndum vildi ég bara öskra, núna get ég ekki hætt að hlæja.

Ótrúlegt að þetta gerðist fyrir ári síðan en ekki bara nokkrum dögum. Hún var svo yndisleg svona nýfædd, horfði á okkur pabba sinn og leitaði svo eftir einhverju að sjúga og var fljót að ná tökum á brjóstinu. Svo lá hún heillengi á bringunni á mér. Þegar pabbi hennar var farinn fórum við að sofa og hún lá við hliðina á mér og gaf frá sér yndisleg værðarhljóð, henni leið greinilega vel.

Nú er þessi litla dama orðin ársgömul og alveg jafnyndisleg, þó kannski á annan hátt. Heimsins mesta frekja segja systur hennar, ég hugsa að hún komist alla vega í topp 20. Já hún er mjög ákveðin og vill gera flest sjálf en eins og er með þennan aldur er viljinn mun meiri en getan. Og hún er hætt á brjósti, ekki að eigin frumkvæði þó og hún er sko alls ekki sátt og lítið kát með mömmu sína þessa dagana.

Þessi eins árs dama er líka byrjuð á leikskóla, búin að fara tvisvar og finnst það gaman en bara þangað til mamma fer. Hún er eiginlega ekkert sátt við að missa mömmu sína úr augsýn og þá er bara öskrað og öskrað. Úff þetta verður ekki auðvelt en fóstrinn hennar er fullur bjartsýni á að vinna hana á sitt band. Á mánudaginn á ég að skilja hana eftir í klukkutímaFrown Hún öskraði allar tíu mínúturnar sem ég fór frá henni í dag. Þetta tekur sinn tíma og hún þarf sko að venja sig af þessari móðursýki sinni, og ætli mamman þurfi ekki líka að venjast að vera án hennar.

Afmælisstelpan er ekki farin að ganga en hún skríður áfram á rassinum og kemst ansi hratt yfir. Hún er líka farin að standa upp sjálf en ekki að ganga með en það kemur örugglega fljótt. Henni finnst mjög gaman að fara í bað með systrum sínum og lætur sko gremju sína skýrt í ljós þegar hún er tekin upp úr, enda er það ekki að hennar beiðni sem hún fer upp úr. Það er líka gaman þegar stóru systurnar nenna að leika við hana og leyfa henni að vera með inni í herbergi.

Það var nú engin stórveisla í dag, skammarlegt frá að segja. Hún fékk nú samt dúkku í afmælisgjöf og við mæðgur erum búnar að syngja oft fyrir hana afmælissönginn. Svo settum við kerti á súkkulaðiköku og Fríða blés fyrir hana. Ásta vissi ekkert hvað þetta átti nú allt að þýða, en ég sagði stelpunum að vera alveg rólegar, hún á eftir að fatta hvað afmæli erSmile

Já tíminn líður sko hratt. Sumarið senn á enda og skólinn hefst eftir helgi. Edda fer í 3. bekk og Fríða í 2. bekk. Hugsið ykkur, það er svo stutt síðan þær voru á leikskóla. Og nú er pabbi orðinn fimmtugur og við það tækifæri var nú meðfylgjandi mynd tekin af fjölskyldunni.

Knús og kossar,
Lóa

Fjolskyldan

 

Og hér er ein af afmælisstelpunni, svo kát með ísinn sinn:

Eins árs og kát með ísinn sinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband