1.3.2009 | 15:35
Bréf til Söru
Elsku besta Sara systir
Hún mamma mín stendur sig ekkert í því að blogga um okkur systur svo ég verð bara að taka þetta að mér. Kannski er hún bara orðin svona þreytt eftir að halda mikið á mér, ég er orðin soddan mömmustelpa og hef varla mátt missa hana úr augsýn. Og mamma segir að það sé vegna þess að ég hef verið lasin, með kvef og eyrnabólgu, iss hún veit ekkert sko. Auðvitað má ég ekki af mömmu sjá af því hjá henni finnst mér best að vera. Og svo pabba líka þegar hann er heima, sérstaklega er gott að sofa í fanginu á honum.
Ég er sko orðin stór núna, enda meira en 6 mánuðir síðan ég fæddist. Mamma fór með mig í skoðun um daginn og þá var ég sko orðin 65 sm og um 6500 gr. Ég er líka farin að borða og finnst best að fá grautinn minn og kannski smá eplamauk út á. Kartöflur finnst mér ekki góðar, ég bara gubba af þeim samt er mamma oft að prófa að gefa mér þær. Segir eitthvað að ég verði að læra að borða þær. Svo hefur hún reynt að gefa mér eitthvað sem hún kallar brauð með smjöri en ég passa mig sko á að opna ekki munninn ef þetta kemur nálægt mér. Jakk. Hún á bara að gefa mér graut og helst ekki þessa ab-mjólk *hrollur* sem hún gaf mér þegar ég var á pensillíni. Getur þú sagt henni þetta fyrir mig?
En það var sko mikil spenna þegar ég fékk graut í fyrsta sinn, Edda og Fríða vildu báðar gefa mér og fannst þetta svo gaman. Þær eru ekkert svo æstar í að gefa mér að borða í dag. En hér er ég að fá graut í fyrsta sinn og er sko alveg til í það. Á næstu mynd sýni ég þér hvað ég borðaði mikið... eða hvað ég ætla að stækka mikið... æ ég man það ekki. En það var alla vega svona stórt!
Og hvað er Ásta stór??? Þetta kann ég sko alveg og finnst það ferlega fyndið að sjá hvað mamma og pabbi verða fyndin á svipinn þegar þau gera þetta, svona kjánamontsvipur sem kemur á þau. Þau lyfta samt ennþá upp höndunum mínum en ég veit samt alveg hvað á að gera þeim finnst bara svo gaman að hjálpa mér að ég leyfi þeim það, læt þau ekkert vita að ég get þetta sjáf. Uss ekki segja.
Við höfum verið mikið heima undanfarnar vikur því ég var lasin og mamma var lasin og stelpurnar pínu lasnar. Og það er búið að vera kalt og mikill snjór en svo fór snjórinn, mömmu til mikillar gleði en svo er hann bara kominn aftur, skil þetta ekki alveg en mér er svo sem alveg sama ég þarf ekki að vaða skafla með vagn í eftirdragi eða skafa bílrúður. Við höfum nú samt farið pínu út, eins og í ballettskólann og svoleiðis. Og svo fórum við í afmæli hjá afa, hann varð sextugur um daginn. Það var mjög gaman en allir borðuðu saltkjöt og baunir nema ég fékk ekkert svoleiðis, ekki einu sinni almennilegan graut því mamma gleymdi honum heima. Ég fékk ekki heldur kökur á eftir en systur mínar voru voða glaðar því það var bæði súkkulaðikaka og marsipanterta, ég held að það verði mjög gaman að fá svoleiðis einhvern tímann. Við systurnar máluðum myndir handa honum, hann fékk því þrjú málverk frá okkur í afmælisgjöf. Mamma gleymdi að taka myndir af listaverkunum en í staðinn er hér mynd af okkur í fanginu á afa, hann fékk líka svona mynd.
Systur mínar voru voða spenntar fyrir öskudeginum og spáðu mikið í hvernig búning þær ættu að vera í. Fríða vildi bara vera norn og þá er nú aldeilis gott að eiga svona góðar vinkonur eins og Margréti Sól og Þórhildi Rósu því þær lánuðu henni nornabúningana sína. Edda vildi ekki vera álfur eða prinsessa en var í staðinn Rauðhetta. Mamma málaði þær svo svaka flott í framan. Hér er mynd af Fríðu Ógurlegu og Rauðhettu með blóm í körfunni. Nornin ógurlega fór svo á frístundaheimilið í öskudagshúllumhæ en fyrst tóku þær lagið í bakaríinu og fengu í staðinn skúffukökubita. Við mamma og Edda skunduðum hins vegar til ömmu. Fyrirgefðu það var Rauðhetta en ekki Edda sem fór til ömmu, að vísu ekki með vín og kökur handa ömmu enda má hún ekkert fá svoleiðis. Seinna um daginn komu svo bestu bestu vinir okkar í heimsókn en það eru Eiríkur Örn, Þórhildur Rósa og Margrét Sól. Svo öskudagur var bara mjög skemmtilegur þrátt fyrir að mamma hafi ekki sett mig í búning. Edda var alltaf að biðja mömmu um það en mamma vildi það ekki. En sko næsta öskudag kemst hún ekki upp með annað en að klæða mig í búning. Veistu Sara það er svo gaman að eiga svona stórar systur eins og Eddu og Fríðu því það er endalaust hægt að heyra sögur af þeim. Til dæmis þegar þær fóru fyrst í grímubúning, þá var Edda að verða 3 ára og var á leikskóla. Hún fór í heimatilbúinn Línu-búning (rosalega flottan) og fékk freknur og tíkó. Fríða fékk að fara í skokk og fá freknur þó hún væri bara hjá dagmömmu. Það er til flott mynd af þeim systrum í þessum búning, kannski skannar mamma hana inn einhvern tímann. En það fyndna við þetta er að Edda Sólveig hætti ekkert að vera Lína þó öskudagurinn væri búinn, næstu vikurnar hún fór ekki í leikskólann öðruvísi en með tíkó og freknur:) Bara eins og ef þú færir ekki út nema setja á þig maskara eða varalit.
Þessar skemmtilegu systur mínar eru núna í vetrarleyfi og eru búnar að vera heima í FIMM daga og þegar mamma sagði þeim áðan að nú skyldu þær lesa - því þær eiga alltaf að lesa heima - hurfu þær inn í herbergi að leika sér og veistu það Sara að þær hafa ekki verið svona góðar vinkonur lengilengi. Kannski er ráðið að láta þær fara að læra til að þær leiki sér fallega saman. Neinei ég segi svona, langoftast eru þær góðar vinkonur. En ég held stundum að þær séu ekki eins hrifnar af mér og fyrst, t.d. segir Edda mér oft að þegja. Já trúirðu þessu. Hún er kannski að horfa á eitthvað í sjónvarpinu og ég er bara að syngja eða segja henni eitthvað skemmtilegt, kannski bara að tala um teiknimyndina þá segir hún bara þegiðu Ásta. Þá fer ég bara að hlæja og hlæja, hún er svo fyndin. Sérstaklega þegar hún segir mér bara aftur að þegja og þá bara hlæ ég enn meir.
Fríða er oft að segja eitthvað fyndið en ég get aldrei munað það, mömmu finnst það fyndið því það er stundum ekki alveg rétt, eins og til dæmis að vera illtara einhvers staðar. Mömmu finnst hún algjör málfræðisnillingur. Og svo býr hún til orð, eins og að blautklúta, það er sem sé að þvo á mér rassinn með blautklút. Mjög skynsöm og alveg rétt orðmyndun, segir mamma:) Og svo er hún líka oft að segja pabba fyrir verkum, hún Fríða sko (mamma segir honum líka fyrir verkum en ég er ekkert að skrifa það hér). Fríða fór til hans um daginn og sagði 'Pabbi, mundu svo að slökkva öll ljósin þegar þú ferð að vinna'. Það er svo fyndið með Fríðu, hún vill hafa allt í röð og reglu (sko hennar uppáhaldsþáttur var einu sinni Allt í drasli, þrífuþátturinn kallaði hún hann), lokar öllum skápum og skúffum sem pabbi gleymir að loka, hún hefur ákveðnar skoðanir á hvar hlutirnir eiga að vera og svona en hún nennir sko alls ekki að taka til sjálf, henni tekst alltaf að koma sér undan því og svo má Edda ganga frá öllu. Ég ætla sko að hjálpa henni þegar ég verð stór eða sko stærri, eða ég held það alla vega. Hérna færðu enn eina myndina af stóru flottu kláru systrum mínum, sem ég hlakka svo til að leika meira við:
Elsku besta Sara mín ég hlakka mikið til að hitta þig þegar þú loksins kemur heim, og líka þessa prakkarafrændur mína sem eru nú að verða tveggja ára segir mamma. Við horfum stundum á videomyndirnar af þeim þar sem þeir eru að príla upp á allt og leika sér. Þá segja Edda og Fríða 'Oooh ég vildi ég væri þarna hjá þeim'. Þær hlakka sko líka til að hitta ykkur aftur.
Nú eru þær búnar að setja mig í dúkkukerru og keyra mig um allt, vá hvað þetta er gaman.
Knús og kossar Sara mín. Edda og Fríða biðja sko kærlega að heilsa og auðvitað mamma og pabbi líka.
Þín litla systir,
Ásta Lóa
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:50 | Facebook
Athugasemdir
Elsku Ásta. Það er gott að þú skulir vera búin að taka við blogginu og séir að segja mér fréttir. Sakna ykkar allra ofboðslega mikið og hlakka til að hitta ykkur í sumar. Við komum sennilega heim eitthvað í sumar svo það eru allar líkur að ég fái að sjá þig í eigin persónu. Þú ert orðin svo stór. Ekki mikið léttari en Þorsteinn Úlfur sem er enn aðeins 9 kíló :-)
Bið líka að heilsa Eddu og Fríðu alveg sérstaklega, og auðvitað mömmu þinni og pabba.
Kossar, og faðmlög, Sarah systir.
sarah systir. (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 19:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.