30.11.2008 | 03:36
Ásta Lóa skírð
Yndislegur dagur er að baki. Ásta Lóa var skírð í dag hér heima í Unufelli og var athöfnin mjög falleg og veislan skemmtileg með góðum mat og góðum gestum. Undanfarnir dagar og eiginlega vikur hafa farið í undirbúning fyrir þennan stóra dag og ekki laust við spennufall í fjölskyldunni nú þegar allt er afstaðið.
Við fengum frábæran kokk til að koma og elda tvo pottrétti, nauta- og kjúklinga. Reyndar kom hann fyrst á fimmtudagskvöldið til að elda kjúklingaréttinn og leyfa okkur að smakka og það er nú nokkuð sem vel er hægt að venjast, það er að fá mann heim til að elda kvöldmatinn, þið ættuð bara að prufa það! Á föstudaginn eldaði hann nautaréttinn og kom svo aftur fyrir veisluna til að elda kjúklinginn. Þetta var nú snilldarhugmynd hjá húsbóndanum að fá vanann mann í starfið, enda létti þetta töluvert mikið undir hjá húsmóðurinni. Skírnartertan var keypt í bakaríi, svo það var nú ekki mikið sem foreldrarnir þurftu að gera fyrir utan náttúrulega að taka til og þrífa og var það nú ærið verk, en við fengum góða hjálp, Fríða amma og Einar frændi voru mjög dugleg.
Ljósaljósið hún Ásta Lóa lét sér nú fátt um finnast um allt tilstandið en til hægðarauka fyrir mömmu sína svaf hún mestan part dagsins og gat því vakað soldið í veislunni og heillað alla gestina, partíljónið sem hún er. Athöfnin var mjög falleg, sr. Sigfinnur Þorleifsson skírði hana. Einar móðurbróðir og Kalla föðursystir Ástu Lóu voru skírnarvottar. Aðrir gestir voru: Edda amma, amma og afi, Hjálmar og Snorri, Sigga, Sigurjón og Valdimar, Þórður, Þóra og Mikael Aron, Ragnhildur og hennar fjölskylda, Fríða frænka og börnin hennar, Hulda Ragnheiður og Guðrún Kristín, og Hilmar maður Köllu. Vonandi er nú ekki að gleyma neinum. En á morgun verður annar í veislu, ekki getur húsmóðirin torgað öllu sem eftir er, þó mathákur sé.
Ásta Lóa fékk margar fallegar gjafir: peninga frá Eddu ömmu, fallegan kjól og húfu og sokka í stíl sem Fríða amma prjónaði, bleikan pels frá frændum sínum, góðan matardisk og smekk frá Ragnhildi og fjölskyldu, skokk, peysu og smekk frá Fríðu frænku, skartgripaskrín frá Þórði og Þóru, englastyttu frá Huldu Ragnheiði, gullkross frá Köllu og Hilmari og sjálfsagt er nú mamman að gleyma einhverju í augnablikinu. Já Edda Sólveig gaf henni dót sem hún átti, lítinn sætabrauðsdreng:) Stóru systurnar fengu nú líka gjafir, gullkross frá Köllu og Hilmari, fallegt skartgripaskrín frá Þórði og Þóru og englastyttu frá Huldu, að ógleymdri myndinni Mamma mia frá Eddu ömmu (og þvílík gleði!).
Reyndar var nú eitt sem skyggði á veisluna í huga móðurinnar. Þannig er að skírnarskálin sem er nú eiginlega erfðagripur frá Lóu ömmu og margir hafa verið skírðir upp úr, meðal annars móðir og eldri systur skírnarbarnsins, brotnaði þegar of heitu vatni var hellt í hana, hún sprakk í þrjá hluta. Og þá fór mamman að gráta. Hágráta meira að segja. En það voru aðeins nokkrar mínútur í að gestirnir færu að koma og til að bjarga málunum var önnur skál notuð og botninn úr gömlu skálinni settur í hana. Sr. Sigfinnur skildi vel þær tilfinningar sem þarna lágu að baki og sagði að nú væri allt heilt, vatnið lagar allt. Svo í rauninni var Ásta Lóa skírð úr skálinni sem Lóa mamma hennar var skírð úr og var áður í eigu Lóu langömmu hennar, svo þetta kom nú ekki að mikilli sök.
En þessi dagur er nú líka sérstakur hjá foreldrunum, þau áttu nefnilega 8 ára brúðkaupsafmæli. Já hugsa sér, það eru liðin átta ár síðan Bárður strunsaði á undan mér inn í Dómkirkjuna þar sem við giftum okkur í kyrrþey á köldu miðvikudagseftirmiðdegi. Honum fannst við eitthvað sein en ég var alveg róleg þar sem ég vissi að presturinn myndi ekki gifta neinn fyrr en við kæmum. Það var líka yndislegur dagur. Og svo má ekki gleyma því að Snorri heitinn, afi skírnarbarnsins, hefði orðið sjötugur í dag. Af því tilefni var einnig boðið upp á upprúllaðar pönnukökur með sykri, en það var eftirlæti hans.
Stóru stelpurnar voru mjög góðar og skemmtilegar eins og þeirra er von og vísa. Þær skemmtu sér vel í veislunni og voru bara afar ánægðar með daginn, enda búnar að hlakka mikið til.
En nú er skýringin búin, eins og Fríða orðar það. Og þá er bara jólaundirbúningurinn framundan.
Ætlunin var að setja hér inn myndir en vegna tæknilegra örðugleika verður það að bíða um sinn.Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
hæ hæ Lóa mín, innilega til hamingju með litlu dúlluna, fallega nafni, hennar 8 ára Brúðkaupsafmælið (man þegar ég hitti þig í vinnunni og þú sagðir mér fréttirnar, að þú værir búin að gifta þig og ættir von á barni-yndislegt).
Mikið ertu nú duglega að jafna þig á þessu með skírnarskálina, ég fékk bara í magann þegar ég las þetta úff. En svona gerist bara.
vona að þið hafið það sem allra best
kv.Didda
Kristín Bjarnadóttir, 30.11.2008 kl. 15:01
Innilegar hamingjuóskir með þennan stóra dag. Ég skil móðurina ósköp vel að hafa farið að gráta, þegar skálin brotnaði. Svona hlutir hafa afskaplega stórt og mikið tilfinningagildi.
Við vorum með ykkur í anda, og hlökkum til að hitta ykkur öll um páskana. Þá ætlar frumburðurinn minn að staðfesta skírnarheitið.
Knús frá hráslagalegri álaborg
Guðný Matt. (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 22:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.