Grenjandi rigning - aftur

Haustið er yndislegur árstími, ef frá eru taldar haustlægðirnar. Í dag fengum við að kynnast ólíkum hliðum haustsins og já íslenskri veðráttu eiginlega. Yndislegt haustloftið lék um okkur í morgun þegar við fórum út, alveg stillt en svo ferskt og gott loft með angan af laufi og næturfrostið að hörfa undan sólinni. 

Eftir annasaman morgun hjá Ljósaljósi sem fólst í því að kúka upp á bak (alfarið skrifað á nýju VIP Baby bleiuna) og fara í bað í kjölfarið, var hún sett í vagninn og arkað af stað með stóru stelpurnar í skólann. Já við fórum snemma út í morgun. Eftir viðkomu í bakaríinu tókum við hús á Eddu ömmu. Já hún er loksins komin heim úr hvíldarinnlögninni og þá er nú auðveldara að heimsækja hanaSmile Amma var nú aldeilis glöð að sjá okkur og við glaðar að sjá hana. Ljósaljós brosti og spjallaði heilmikið við ömmu sína og heillaði líka heimilishjálpina upp úr skónum. Við buðum ömmu út í göngutúr en hún treysti sér ekki, hún sem hefði haft svo gott af því að koma út í góða loftið og fallega veðrið.

Við fórum svo heim undir hádegið og þá var enn svona yndislegt veður. Mamma ákvað því að fara aftur út að ganga þegar stelpurnar væru búnar í skólanum og taka með okkur nesti og fara á bókasafnið. Og við gerðum þetta, nema hvað þegar við fórum af stað hafði kólnað allverulega og svo fór að rignaCrying 

Við létum okkur nú hafa það að arka á bókasafnið í Gerðubergi, enda þurftum við að skila myndinni Benjamín Dúfa. Það voru rennblautar mæðgur sem gengu inn á bókasafnið og skiptu á myndum, fengum Jón Odd og Jón Bjarna í staðinn. Nestið borðuðu stelpurnar svo á kaffihúsinu í Gerðubergi áður en við héldum heim. Mikið svakalega var nú mömmunni kalt enda hafði úlpan blotnað í gegn.

Þessar yndislegu stelpur mínar fóru svo að læra þegar við komum heim og Ljósaljós bara svaf áfram. Og svo horfðum við auðvitað á myndina og ekki leiddist þeim á meðan. Ég las bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna fyrir þær í fyrra en þær mundu nú ekki mikið eftir því. Svo þá get ég lesið þær aftur. En fyrst þarf ég að klára Bróðir minn Ljónshjarta og svo bíður Benjamín Dúfa líka eftir því að vera lesin, ásamt bókinni Fjör í fyrsta bekk. Þær eru mjög spenntar yfir Ljónshjarta, enda er hún bæði spennandi og skemmtileg.

Það er annasamur dagur framundan en líklega förum við Ljósaljós ekki í göngutúr eins og í morgun, þar sem spáð er roki og rigningu.

Góða nótt,
Mamma og stelpurnar þrjár 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband